„Orrustan er töpuð en ekki stríðið“

Lögreglumenn ræða við forsvarsmenn sjómanna á bryggjunni á Akureyri í …
Lögreglumenn ræða við forsvarsmenn sjómanna á bryggjunni á Akureyri í dag. mbl.is/Kristján

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins og forystumenn samtaka sjómanna, alls sex manns, eru sloppnir úr haldi lögreglu eftir skýrslutöku á lögreglustöðinni á Akureyri í dag. Þeir komu í veg fyrir að löndun úr Sólbaki EA gæti hafist á löndunarbryggju Brims fyrr í dag og voru handteknir svo hægt yrði að landa úr skipinu. „Þessi orrusta er töpuð en ekki stríðið,“ sagði Sævar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Sexmenningarnir voru á lögreglustöðinni á Akureyri í um eina og hálfa klukkustund meðan skýrslur voru teknar af þeim. Á meðan hófst löndun úr Sólbaki. „Við gerum ekkert meira hér í sjálfum sér, orrustan er töpuð en stríðið er allt eftir. Við munum í framhaldinu ráða ráðum okkar, forystumenn verkalýðshreyfingarinnar og forystumenn sjómannasamtakanna áður en við tökum næsta skref,“ sagði Sævar.

Hann sagði að þetta hafi verið mikil törn og lítið hafi verið sofið í rúma tvo sólarhringa meðan aðgerðir stóðu yfir. „Við teljum þetta ekki eftir okkur. Tilgangurinn var að stöðva löndun úr skipinu, en einnig var tilgangurinn með þessu að vekja athygli á því hvernig kvótagreifarnir á Íslandi ætla að rúlla yfir sjómannastéttina í framtíðinni ef þeir komast upp með þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert