Sjö rússnesk skip við æfingar austur af landinu í gær

Stór olíuflekkur var á sjónum við rússnesku skipin.
Stór olíuflekkur var á sjónum við rússnesku skipin.

Í gæsluflugi Landhelgisgæslunnar í gær var komið að sjö rússneskum herskipum sem lágu fyrir akkeri 8-15 sjómílur utan við 12 sjómílna landhelgismörkin norðaustur af Raufarhöfn. Skipin hafa verið á æfingu austur og norðaustur af Íslandi undanfarna daga.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir, að áhöfn TF-SYN, flugvélar Landhelgisgæslunnar, hafi fyrst orðið vör við skipin 29. september en Landhelgisgæslan hafi ekki fengið tilkynningar um heræfingar frá rússneskum yfirvöldum.

Um er að ræða eftirtalin skip: Flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov (síðunúmer 063) en það er 58 þúsund tonn og 304 metra langt, beitiskipið Pyotr Velikiy (síðunúmer 099) en það er 24.300 tonn að stærð og 252 metra langt, Marshal Ustinov (síðunúmer 055) en það er 11.500 tonn að stærð og 186 metra langt, Besstrashny (síðunúmer 434) en það er 7.900 tonn og 156 metra langt og birgðaskipið Segey Osipov en það er 23.400 tonn og 162 metra langt. Auk framangreindra skipa eru tvö björgunar- og dráttarskip á svæðinu. Annað þeirra heitir Altay og er 4000 tonn og 93 metra langt. Hitt skipið er merkt einkennisstöfunum SB-406 en það er 300 tonn og 69 metrar að lengd.

Landhelgisgæslan segir, að flugmóðurskipið og birgðaskipið hafi verið tengd saman með olíuslöngu þegar sást til þeirra og að öllum líkindum verið að umskipa olíu. Á myndum af skipunum sjáist stór olíuflekkur aftan úr þeim. Öll skipin tilheyra rússneska hernum.

Rússneskt flugmóðurskip austur af landinu.
Rússneskt flugmóðurskip austur af landinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert