Steingrímur segir skattalækkanir ríkisstjórnarinnar glórulausar

Steingrímur J. á haustfundi Vinstri grænna. Hann sagði að nú …
Steingrímur J. á haustfundi Vinstri grænna. Hann sagði að nú væru viðsjárverðar aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar og það þyrfti að halda vel á spilunum ef ekki ætti illa að fara. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði á haustfundi flokksráðs Vinstri grænna á Grand Hótel í Reykjavík í dag að nú væru viðsjárverðar aðstæður í efnahagsmálum þjóðarinnar og það þyrfti að halda vel á spilunum ef ekki ætti illa að fara. Verðbólga væri mikil, viðskiptahallinn sömuleiðis, gengið hátt og afkoma í útflutningsgreinum erfið. Atvinnuleysi væri vaxandi í góðærinu miðju og væri ekki að minnka.

Steingrímur sagði í ræðu sinni skattalækkanir ríkisstjórnarinnar glórulausar við þessa þensluveislu sem ríkisstjórnin bæri ábyrgð á. Hann gerði kjarasamninga kennara sérstaklega að umtalsefni. Kjarabarátta gunnskóla væri eðlileg og óskandi væri að hún yrði öðrum hvatning til að sækja sitt, ekki síst þeim sem lægst hefðu launin í þjóðfélaginu. Verðmætin væru nóg og það væru ekki þessar kjarabætur sem stefndu efnahagsmálunum í voða, heldur efnahags- og stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar.

Hann sagði það ósmekklegt að reyna að kenna kennurum um að allt færi úr böndunum í efnahagsmálunum og vísaði þar til málflutnings Einars Odds Kristjánssonar, varaformanns fjárlaganefndar. „Það er ríkisstjórnin sem ber höfuðábyrgðina ef hlutirnir fara úr böndunum,“ sagði hann. Þá sagði hann að það væri stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar með ruðningsáhrifum sem hefðu mest áhrif, sem skýrði mikla verðbólgu, hátt gengisstig og hátt vaxtastig í landinu. „Bankarnir með lánastefnu sína bera einnig töluverða ábyrgð,“ sagði Steingrímur m.a. í ræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert