Mikið er af sel inni í Hornafirði

Í byrjun vikunnar voru taldir 70-80 selir í Hornafirði.
Í byrjun vikunnar voru taldir 70-80 selir í Hornafirði. mbl.is

Mikið er af sel inni í Hornafirði og sumir koma inn á höfnina alveg inn að bryggjum, enda afskaplega forvitnar skepnur. Karl Sigurðsson, sem er manna fróðastur um lífríki í firðinum, segir að fullt sé af sel inni í firðinum og þar liggi þeir á sandeyrunum. Í byrjun vikunnar voru taldir þar 70-80 selir.

Karl segir í samtali við samfélagsvef Hornafjarðar að fyrir 25 árum hafi verið lítið um sel innan fjarðar og þeir lágu ekki hér inni nema nokkrir sem héldu sig við Álftasker, sem er austan við Þinganes, þar kæptu nokkrir selir hér áður fyrr. Svona selavöður eins og eru nánast alltaf núna sáust ekki hér áður fyrr. Hann segir greinilegt að eitthvað mikið hafi breyst í lífríkinu því að t.d. er allur selur að heita má horfinn frá Stokksnesi, þar sem þeir lágu alltaf uppi hér áður fyrr.

Selurinn virðist hafa nóg æti inni í firðinum og fer ekkert út á sjó eins og áður var. Í ljós kom við krufningu sela sem voru veiddir innan fjarðar tvö síðustu sumur, að fæða þeirra hafði verið sandsíli og trönusíli. Selurinn gæðir sér líka á kola og ýmsu öðru góðgæti úr lífríki fjarðarins. Aðallega er hér um landsel að ræða og einn og einn útselur flækist með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert