Vill endurskoða ferlið í kringum stuðning við Íraksstríðið

Hjálmar Árnason alþingismaður kveðst vera opinn fyrir því að endurskoðað verði allt ferlið sem tengist stuðningi Íslands við Íraksstríðið. Hann lét orð í þá veru falla í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í gær.

Morgunblaðið leitaði nánari skýringar á orðum Hjálmars.

"Það sem ég sagði í heitum umræðum var að ég væri opinn fyrir því að endurskoða allt þetta ferli, í ljósi þes að við hefðum treyst á upplýsingagjöf í alþjóðamálum frá okkar helstu bandamönnum. Í þetta skiptið reyndust upplýsingarnar rangar hvað varðaði gereyðingarvopn," sagði Hjálmar. "Það breytir forsendum í rauninni dálítið mikið. Ég sagðist vera opinn fyrir því að endurskoða þetta ferli allt, en lagði jafnmikla áherslu á að við yrðum að hafa í huga uppbygginguna hjá hinni stríðshrjáðu þjóð."

Spurður um hvað hægt væri að endurskoða, í ljósi þess að Ísland er þegar komið á lista hinna staðföstu þjóða, sagði Hjálmar að hægt væri að endurskoða afstöðu okkar. Ekki væri óeðlilegt að menn veltu því fyrir sér, í ljósi þess að afstaðan hefði byggst á röngum upplýsingum. "Ég vil endurskoða ferlið frá upphafi til enda, en er ekki búinn að gefa mér neina niðurstöðu."

Hjálmar kvaðst setja þessa skoðun fram í eigin nafni, en ekki sem formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Hann var spurður hvort fleiri félagar hans væru á sama máli. "Það eru ugglaust skiptar skoðanir innan minna raða eins og margra annarra í svo flóknu og viðamiklu máli sem þetta er," sagði Hjálmar. Hann sagði það hafa verið rætt innan flokksins að ferlið yrði endurskoðað. Aðspurður hvort vænta mætti tillagna frá framsóknarmönnum um þessi mál sagði Hjálmar:

"Við höldum þessum umræðum áfram. En ég tala hér sem einstaklingur. Ég er ekki með neinar samþykktir á bak við mig, enda engar samþykktir um þetta gerðar á vegum flokksins, hvorki í upphafi né síðar."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert