Deilt um afstöðu til aðgerða í Írak á Alþingi

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að ef Íslendingar féllu frá stuðningi við aðgerðir Bandaríkjamanna og annarra ríkja í Írak, þá þýði það að Íslendingar láti af stuðningi við hina pólitísku og efnahagslegu uppbyggingu í Írak.

Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði í upphafi þingfundar ummæli Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framsóknarflokks, í sjónvarpsþætti í gær að umræðuefni en Hjálmar sagði þar og í fleiri fjölmiðlum síðar að hann telji koma til greina að endurskoða stuðning Íslendinga við Íraksstríðið í ljósi þess að upplýsingar sem byggt var á um gereyðingavopnaeign Íraka hafi reynst rangar.

Guðmundur sagðist vilja hæla Hjálmari fyrir það pólitíska þrek að láta samvisku sína ráða för og sagði að hann væri vonandi fyrstur af fleirum sem kæmi í lið stjórnarandstæðinga í þessu máli. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist einnig vilja hrósa Hjálmari fyrir hugrekkið að lýsa því yfir til greina komi að endurskoða stuðninginn við innrásina í Írak. Sagði Össur að Hjálmar myndi fá tækifæri til að láta þessa afstöðu koma fram í þinginu því það væri enn óafgreidd tillaga frá formönnum stjórnarandstöðuflokkanna um að Ísland verði tekið af lista hinna svonefndu staðföstu þjóða.

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði að íslensk stjórnvöld styddu lýðræðisuppbygginguna í Írak og ynnu á grundvelli samþykktar Sameinuðu þjóðanna um uppbyggingu Íraks. Spurði Halldór hvaða stefnu Samfylkingin hefði varðandi þessi mál og sagði að eitt sinn hefðu lýðræðisflokkarnir á Íslandi stutt það sem vestrænar þjóðir voru að gera. Nú hefði gamla Alþýðubandalagið enn einu sinni náð yfirhöndinni í Samfylkingunni í utanríkismálum á sama tíma og helstu samstarfsþjóðir Íslendinga í utanríkismálum hefðu ákveðið að ljúka starfinu í Írak varðandi lýðræðisuppbygginguna.

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, sagði að hvergi færi fram umræða um að taka lönd af umræddum lista nema hér. Sagði Davíð Allt of mikið gert úr orðum Hjálmars. Sagðist Davíð hafa þurft að fara á Landspítalann og láta skera úr sér krabbamein og fyrir aðgerðina hefði hann þurft að gefa skriflegt samþykkti. Sagði hann að ef hann nú kæmi og vildi taka til baka þetta samþykki við uppskurðinum þá yrði litið á hann sem einhverskonar fífl. Þetta dytti engum í hug nema Samfylkingunni sem væri eins og afturhaldskommatittsflokkur. Sagði hann að menn hefðu viljað að krabbameinið Saddam Hussein yrði skorið í burt í Írak og síðan tæki við endurhæfing. Allir styddu þessa endurhæfingu nema Samfylkingin.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að auðvitað væri það fagnaðarefni ef stjórnarsinnar væru að byrja að sjá að sér í þessu máli og vildu fara af lista hinna vígfúsu þjóða en það kæmi fyrir lítið á meðan höfuðpaurarnir tveir sæju ekki að sér.

Guðmundur Árni sagði, að ef það að taka þetta mál upp þýddi að hann væri uppnefndur afturhaldskommatittur úr Hafnarfirði þá yrði svo að vera. Og ef menn kysu að fara í gamla kaldastríðsfarið þá yrði einnig svo að vera. Þessi umræða færi nú fram í fjölda þjóðþinga. Sagði Guðmundur Árni, að það væri búið að staðfesta það mörgum sinnum að Samfylkingin styðji uppbyggingu Sameinuðu þjóðanna í Írak og það væri skylda allra að styðja við hana.

Hjálmar Árnason sagði að lof Guðmundar Árna væri oflof í þessu tilfelli og hann mætti ekki oftúlka orð sín. Það væri hlutverk stjórnmálamanna að fara yfir mál og taka þau stöðugt til endurmats. Sagðist Hjálmar telja, að það sé ekki óeðlilegt að skoða aðdraganda Íraksmálsins. Fram hefðu komið fram ákveðnar forsendur sem reyndust ekki réttar en menn hefðu trúað þeim á sínum tíma. Hjálmar sagði, að Ísland væri smáríki sem hefði verið háð upplýsingum frá bandamönnum sínum. Ef þær reyndust ekki réttar yrði að fara yfir málið. En Íslendingar verði að axla ábyrgð sína um uppbyggingu hjá stríðshrjáðri þjóð og geti ekki dregið sig út úr því starfi.

Halldór Ásgrímsson, sagðist heyra það á þingflokki Samfylkingar, að þar vilji menn ræða fortíðina en það sem skipti máli sé hvaða afstöðu þingmennirnir hafi gagnvart því sem nú sé verið að gera í Írak. „Innrásin er löngu búin," sagði Halldór. Sagði hann, að styðji menn samþykkt öryggisráðsins um uppbyggingu Íraks séu menn jafnframt að styðja veru erlenda herliðsins í Írak, Bandaríkjamanna, Breta og Dana. Ef Íslendingar væru teknir af umræddum lista þýddi það að þeir væru að taka til baka stuðning sinn við uppbygginguna í Írak.

Davíð Oddsson sagði að í síðari ræðu Guðmundar Árna hefðu gerst þau merkilegu tíðindi að Alþýðuflokkurinn gamli væri aftur kominn með töluverð ítök í Samfylkingunni og því hefði verið lýst yfir í fyrsta sinni að Samfylkingin styðji veru erlends hers í Írak. Sagðist Davíð þakka Hjálmari Árnasyni þennan laglega hælkrók sem hann hefði beitt til að ná þessu fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert