Harma fyrirferðarmikla umræðu um lágmarksþóknanir listamanna á tónleikum fyrir krabbameinssjúk börn

mbl.is/Árni Torfason

Listamenn sem komu fram á þrennum tónleikum til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna í Hallgrímskirkju fengu greitt fyrir það 6,2 milljónir króna, en hagnaður af tónleikunum nam tæplega fimm milljónum króna. „Allir þeir sem komu fram á tónleikunum gáfu stóran hluta af vinnu sinni og gáfu Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna að auki útgáfurétt á öllum tónlistarflutningi allra tónleikanna. Listamönnum eru færðar bestu þakkir fyrir stórkostlegt framlag til þessa verkefnis um leið og það er harmað að umræða um umsamdar lágmarksþóknanir til þeirra skuli hafa orðið jafn fyrirferðarmikil og raun ber vitni,“ segir í yfirlýsingu aðstandenda tónleikanna.

Í fréttatilkynningunni segir m.a.: „Hagnaður af tónleikum sem haldnir voru til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna í Hallgrímskirkju nemur 4.748.882 krónum, sem er í samræmi við upphafleg markmið tónleikanna. Tekjur vegna seldra aðgöngumiða námu tæplega 8 milljónum króna en heildartekjur námu alls ríflega 13,1 milljón króna. Heildarkostnaður nam tæplega 8,5 milljónum króna. Hagnaðurinn hefur verið afhentur stjórn félagsins ásamt lokauppgjöri.

Styrktartónleikarnir voru þrennir talsins og komu þar fram fjórir einsöngvarar auk 23 tónlistarmanna og yfir 160 kórfélaga. Allir þeir sem komu fram á tónleikunum gáfu stóran hluta af vinnu sinnu og gáfu Félagi krabbameinssjúkra barna að auki útgáfurétt á öllum tónlistarflutningi allra tónleikanna. Listamönnum eru færðar bestu þakkir fyrir stórkostlegt framlag til þessa verkefnis um leið og það er harmað að umræða um umsamdar lágmarksþóknanir til þeirra skuli hafa orðið jafn fyrirferðarmikil og raun ber vitni.

Alls voru listamönnum tónleikanna þriggja greiddar ríflega 6,2 milljónir fyrir framlag þeirra. Kostnaður vegna hljóðkerfis og upptöku vegna fyrirhugaðrar útgáfu efnisins á geisladiski nam tæplega 1,5 milljónum króna, húsaleiga var ríflega hálf milljón króna og annar kostnaður varð 250 þúsund krónur. Skipuleggjandi tónleikanna, Kynning ehf. og Ólafur M. Magnússon, gaf að venju alla vinnu sína við undirbúning og framkvæmd verkefnisins.“

Ólafur M. Magnússon segist hafa unnið að ýmsum verkefnum með Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna í gegnum tíðina og um nokkurra ára skeið skipulagt viðamikla styrktartónleika í Hallgrímskirkju. „Þessi vinna hefur verið afar skemmtileg og mikill fjöldi listamanna hefur lagt þessum verkefnum lið með margvíslegum hætti. Ég vona innilega að sú athygli sem beinst hefur að þeim lágmarkslaunum sem ég bauð listafólkinu fyrir þáttöku sína verði ekki til þess að draga úr vilja þeirra í framtíðinni til þess að leggja góðgerðarverkefnum lið í sjálfboðavinnu eða gegn hóflegu gjaldi,“ segir hann.

Rósa Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna, segir þau vera afskaplega þakklát þeim mikla fjölda fólks sem lagði hönd á plóg við þetta glæsilega tónleikahald. „Fjárhagslegi afraksturinn skiptir krabbameinssjúk börn miklu máli en hlýhugurinn og sú athygli sem listviðburður af þessu tagi beinir að tilvist Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna eru ekki síður mikilvægir þættir,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert