Formenn þingflokka taka undir ályktun ungliðahreyfinga um DV

Formenn þingflokka á Alþingi hafa sent frá sér tilkynningu þar sem tekið er undir ályktun ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna en þar er því beint til ritstjórnar DV að endurskoða ritstjórnarstefnu sína.

Segjast þingflokksformennirnir vilja minna eigendur og ritstjórnir fjölmiðla á, að tjáningarfrelsinu fylgi mikil ábyrgð og beri að forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki eða fólki sem eigi um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu, eins og segi í siðareglum Blaðamannafélags Íslands.

Undir þetta skrifa Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki, Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, Margrét Frímannsdóttir, Samfylkingunni og Ögmundur Jónasson, Vinstri hreyfingunni - grænu framboði.

Nú klukkan 15:30 höfðu rúmlega 11.600 manns skrifað undir undirskriftasöfnun, sem fram fer á vefnum deiglan.com en þar er skorað á blaðamenn og ritstjóra DV að endurskoða ritstjórnarstefnu sína og sýna ábyrgð og virðingu í umfjöllun um menn og viðkvæm málefni. Jafnframt eru eigendur og útgefendur blaðsins minntir á þá samfélagslegu ábyrgð sem fylgir því að gefa út fjölmiðil.

Deiglan.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert