Klukkan hálf eitt í nótt barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um alvarlegt slys á mótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar. Ökumaður var nítján ára stúlka á Opel Astra bifreið. Lögreglan sagði eftir vitnum á staðnum að um kappakstur við annan bíl hafi verið að ræða og missti stúlkan stjórn á bílnum sem braut niður tvo ljósastaura og stöðvaðist á þeim þriðja. Stúlkan var ekki í bílbelti og kastaðist út úr bílnum. Hún lést á slysadeild Landspítalans háskólasjúkrahúss.
Að sögn Þórðar Þórðarsonar, varðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík, voru bifreiðarnar tvær á leið austur er slysið varð. „Hinn bíllinn stöðvaði ekki, en við höfðum upp á honum. Það er ekki víst að ökumaður hans hafi orðið var við slysið," sagði Þórður.
Lögreglan staðfesti jafnframt að átta manns hefðu verið fluttir upp á slysadeild af slysstað og hlutu þar áfallahjálp.