Ýktar tölur um virkjanlega orku

Seljanlegur vatnsorkuforði Íslands hefur verið ýktur og ofmetinn og til að ná því marki sem kynnt er í bæklingum erlendis þyrfti að virkja nánast hverja einustu sprænu á landinu. Þetta kemur fram í nýrri bók Andra Snæs Magnasonar sem kemur út á mánudag.

Bókin heitir Draumalandið – sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð en öfugt við fyrri bækur Andra er þetta ekki skáldsaga eða ljóðabók heldur bók um íslenskan veruleika.

Andri bendir á í samtali við Tímarit Morgunblaðsins um helgina, að bæklingar hafi verið sendir um allan heim þar sem því er haldið fram að á Íslandi sé hægt að virkja sem nemur 30 terawattstundum (TWh) á ári á hagkvæman hátt og í sátt við umhverfið. Andri ákvað að leggjast yfir hvað þessar tölur þýða. Hann segir að árið 2002 hafi Íslendingar nýtt sem nemur sjö terawattstundum á ári og þar af fóru fjórar til stóriðju.

„Til þess að komast upp í þessi 30TWh þyrfti ekki aðeins að virkja öll stórfljót landsins, s.s. Jökulsá á Fjöllum, Skjálfandafljót, alla Þjórsá, Markarfljót inn á gönguleiðir Laugavegarins og Hvítá í Árnessýslu svo fátt eitt sé nefnt, heldur þyrfti að teygja sig ofan í laxveiðiár á borð við Selá, Grímsá, Vatnsdalsá og Stóru-Laxá,“ útskýrir Andri. „Raunar væri mögulegt að sleppa því að virkja Gullfoss en það þyrfti að virkja bæði ofan og neðan við hann.“

Andri segir Íslendinga bjóða það sem stundum er kallað „vannýtt orka“ á lágu verði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert