Meirihluti Hæstaréttar telur Pál hæfastan

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is
HÆSTIRÉTTUR telur að Páll Hreinsson prófessor sé hæfastur þeirra fjögurra umsækjenda sem sótt hafa um stöðu hæstaréttardómara. Hefur dómurinn skilað umsögn sinni til setts dómsmálaráðherra, Geirs H. Haarde, sem skipar í stöðuna.

Í umsögn Hæstaréttar um umsækjendurna, þau Hjördísi Björk Hákonardóttur dómstjóra, Pál Hreinsson prófessor og héraðsdómarana Sigríði Ingvarsdóttur og Þorgeir Inga Njálsson, segir að öll séu þau hæf en Páll þeirra hæfastur. Með tilliti til sjö atriða, náms, dómarastarfa, kennslu, ritstarfa, starfa á vegum ríkisins, starfa við undirbúning lagasetningar og annarra stjórnsýslustarfa, taldi Hæstiréttur að Páll stæði öðrum umsækjendum sýnilega fremstur að hæfni til að hljóta embætti hæstaréttardómara. Næst honum komu Hjördís og Sigríður jafnar og loks Þorgeir Ingi.

Að þessu áliti stóðu hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Tveir dómarar, þeir Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson, skiluðu sérálitum. Í áliti sínu segir Jón Steinar að allir séu umsækjendurnir hæfir en hann fellst hins vegar ekki á réttmæti þess að raða þeim í hæfnisröð. Bendir hann á að nú sé þeim Sigríði og Hjördísi Björk skipað jafnt í niðurröðun réttarins þó að greinarmunur hafi verið gerður á þeim árið 2001 þegar þær sóttu um embætti við réttinn. Ekki geri Hæstiréttur nú grein fyrir hvað valdið hafi þessum sinnaskiptum. Þá telur hann ekki ástæðu til að setja Þorgeir Inga í síðasta sæti.

Ólafur Börkur telur alla hæfa í sínu áliti en segir að samanburður dómaraefna sé óvarlegur og ósanngjarn. Telur hann hæpið af umsagnaraðila að raða umsækjendum í sérstaka röð. Þá gerir hann athugasemd við aðgreiningu umsækjenda úr röðum héraðsdómara. Við þá röðun sé skírskotað til þeirrar myndar sem meirihluti Hæstaréttar kveðst hafa fengið af hæfni þeirra með því að fjalla um dómsmál sem þeir hafa leyst úr. Þá sé jafnframt notuð sú mælistika að líta til atriðanna sjö án þess að gera grein fyrir innbyrðis vægi þeirra atriða, sem þó er sagt vera mismunandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert