Skilorðsbundið fangelsi fyrir að sýna stúlkum klámmynd

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa sýnt 8 og 9 ára gömlum dætrum fyrrum sambýliskonu sinnar klámmynd. Maðurinn var hins vegar sýknaður af ákæru fyrir að hafa beitt stúlkurnar kynferðislegu ofbeldi þegar hann fór í bað með þeim. Hann var einnig sýknaður af bótakröfum.

Í dómnum eru skýrslutökur yfir stúlkunum gagnrýndar harðlega en þær skýrslurnar voru teknar af rannsóknarlögreglumanni undir stjórn héraðsdómara og settar á myndband. Er í dómnum rakin orðaskipti spyrils og stúlknanna.

Dómurinn, sem var fjölskipaður, segir að fyrir liggi, að þegar spyrillinn tók skýrslur af stúlkunum hafði hann undir höndum kæruskýrslu móður þeirra, þar sem atburðum og atburðarás sé lýst á skýran hátt um annað en ætlaða klámmyndasýningu. Segir í dómsniðurstöðunni að spyrillinn hafi mótað skýrslugjöf yngri stúlkunnar svo fullkomlega, að ekki aðeins samrýmdist hún kæru­skýrslunni heldur var nú fram komið að maðurinn hefði að baðinu loknu látið systurnar horfa á klámmynd með honum. Ekkert af þessu hefði komið fram í sjálf­stæðri frásögn telpunnar og atburðarás hafi algjörlega verið stjórnað af spyrlinum.

Segir dómurinn að spyrillinn hafi leitt skýrslutökuna áfram á einkar hlutdrægan hátt með þeim afleiðingum meðal annars að stúlkan mátti, eða átti, aldrei að hafa minnstu efasemdir um framferði og sekt mannsins. Hafi steininn tekið úr í þessu samhengi þegar spyrillinn játaði fyrir stúlkunni, að lögreglan gæti tekið manninn fastan og látið hann í fangelsi fyrir systurnar og móður þeirra, „fyrir það sem hann gerði ykkur, við ykkur“, svo notuð séu orð hans.

Dómurinn segir að eldri stúlkan hafi fengið í ríkari mæli tækifæri til að skýra sjálfstætt frá atburðum og framburður hennar sé í heild skýrari og ber vott um meiri aldursþroska. Hins vegar taldi dómurinn að frásögn stúlknanna væri óljós um atvik í baðkerinu og var maðurinn sýknaður af þeim ákærulið enda neitaði hann staðfastlega sök.

Frásögn stúlknanna um klámmyndina var hins vegar talin trúverðug og svo áreiðanleg í heild, að ekki var talinn leika skynsamlegur vafi á því að það hefði gerst, þrátt fyrir að sú atburðarás hefði verið fengin fram af hálfu yngri stúlkunnar með leiðandi spurningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert