Margir aldraðir telja sig geta verið heima fái þeir næga þjónustu

Rúmur helmingur aldraðra á biðlistum eftir hjúkrunarrými í Reykjavík telur sig geta verið heima fái fólk sömu eða svipaða þjónustu heim og það fær nú. Þetta er meðal þess sem fram kemur í frumniðurstöðum könnunar sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lét landlæknisembættið gera á viðhorfum og aðstæðum aldraðra á biðlistum eftir hjúkrunarrými í Reykjavík.

Um 85% þeirra öldruðu sem svöruðu, eða svarað var fyrir, eru skilgreindir samkvæmt vistunarskrá í brýnni eða mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Um fimmtungur þeirra sem könnunin náði til eru á aldrinum 70 til 80 ára, 56% á aldrinum 80 til 90 ára og fimmtungur á tíræðisaldri. Aðrir undir sjötugu. 62% af þeim sem könnunin náði til búa með öðrum, þ.e. með maka, ættingja eða í þjónustuíbúð.

Spurt var um hvort viðkomandi einstaklingur, sem er á biðlista eftir hjúkrunarrými, fengi reglulega heimilishjálp frá Reykjavíkurborg og niðurstaðan er sú að um 85 af hundraði þeirra sem fá heimilshjálp fá þessa aðstoð tvisvar í viku eða sjaldnar.

Aðeins um 13,5% þeirra sem fá heimilishjálp sveitarfélagsins fá aðstoðina daglega eða oftar. Heilbrigðisráðuneytið segir athyglisvert, að lítill minnihluti telji sig þurfa meiri heimilishjálp en nú sé veitt í Reykjavík og af þessum hópi telji flestir sig þurfa hjálp einu sinni í viku. Þetta kunni m.a. að skýrast af þeirri félagslegu sérstöðu sem einkennir íslenskt samfélag og kemur fram í miklu sambandi fjölskyldna hér og er meira en þekkist meðal grannþjóða okkar. Í könnuninni komi til að mynda fram í þessu sambandi að aldraðir fá aðstandendur og vini mjög oft í heimsókn og njóta aðstoðar þeirra. Tæp níutíu prósent þeirra sem svara sögðust fá heimsóknir og hjálp aðstandenda fimm sinnum og oftar í viku hverri.

Þegar spurt var um heimahjúkrun aldraðra á biðlista eftir hjúkrunarrými í Reykjavík sýna niðurstöðurnar að um 46 af hundraði þeirra sem njóta heimahjúkrunar fá þjónustuna tvisvar í viku eða sjaldnar. Tæp 54% nýtur heimahjúkrunar daglega eða oftar. Af þeim sem telja sig þurfa meiri heimahjúkrun kysi helmingurinn að fá heimahjúkrun daglega eða oftar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert