Málefni innflytjenda í brennidepli hjá mannréttindastofu Reykjavíkurborgar

Þórhildur Líndal
Þórhildur Líndal

Þórhildur Líndal mannréttindaráðgjafi Reykjavíkurborgar segir að á næstu mánuðum verði málefni innflytjenda í brennidepli hjá mannréttindaskrifstofu borgarinnar og að kallað verði eftir gögnum frá stofnunum borgarinnar sem vinna að málefnum innflytjenda á einn eða annan hátt, svo borgin geti enn betur bætt sig sem stjórnvald, atvinnurekandi, veitandi þjónustu og samstarfsaðili.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefur sett sér mannréttindaáætlun en í henni kemur m.a. fram að sviðið starfi á grundvelli jafnræðis, mannréttinda og góðrar samvinnu við alla borgarbúa. Áætlunin á að efla fjölmenningarsamfélagið í borginni og er óheimilt er að mismuna, t.a.m. vegna: aldurs, fötlunar, heilsufars, kyns, kynhneigðar, trúarbragða og stjórnmálaskoðana, þjóðernis, uppruna, litarháttar og menningar. Mannréttindaáætlun Umhverfissviðs er sett í kjölfar þess að mannréttindastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn í vor. Í henni kemur fram að Reykjavíkurborg hefur jafnræði borgaranna og mannréttindi þeirra að leiðarljósi.

„Mannréttindastefnan nær yfir mun fleiri svið en jafnréttisstefnan því lögð er áhersla á jafnræði allra borgaranna. Það er óheimilt að mismuna borgurum vegna aldurs, fötlunar, heilbrigðis, kynhneigðar, trúarbragða og stjórnmálaskoðana, uppruna og þjóðernis en sérstök áhersla er þó lögð á jafnrétti kynjanna í mannréttindastefnunni,“ segir Þórhildur Líndal mannréttindaráðgjafi í fréttatilkynningu.

Mannréttindaáætlun Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert