Íslandsmeistaramót kajakræðara á Sæluhelgi

Frá Íslandsmeistaramóti kajakræðara á Suðureyri.
Frá Íslandsmeistaramóti kajakræðara á Suðureyri. mbl.is/Þorsteinn Tómasson

Niðurstaða liggur fyrir um fyrsta sætið í karlariðli Íslandsmeistaramóts kajakræðara um helgina. Haraldur Njálsson vann í 10 km kajakróðri, sem var meðal dagskrárliða Sæluhelgar á Suðureyri, og er þar með stigahæstur.

Keppendur fengu gott veður og sagðist einn þeirra, Sigurður Pétur Hilmarsson, sjaldan hafa siglt við aðstæður sem þessar. Í firðinum er sjórinn venjulega rólegur en vindurinn getur orðið krappur. Nú virkaði hann sem ágætis loftkæling á keppendur í steikjandi hitanum fyrir vestan.

Eitt mót er eftir í mótaröðinni. Í byrjun september verður barist um 2 sætið í Hvammsvíkurmaraþoni. Nú um helgina vann Haraldur karlariðilinn með tímann 55,12, Ólafur Einarsson var í öðru sæti á tímanum 55,42 og í því þriðja var Halldór Sveinbjörnsson á 55.56.

Elín Marta Eiríksdóttir vann kvennariðilinn og réri hún 10 kílómetrana á 1.16.28. Heiða Jónsdóttir var öðru sæti, en aðeins tvær konur kepptu að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka