Landsvirkjun býður út undirbúningsframkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun

Frá áætluðum virkjunarstað Jökuls á Dal við fremri Kárahnjúk.
Frá áætluðum virkjunarstað Jökuls á Dal við fremri Kárahnjúk. mbl.is/RAX

Stjórn Landsvirkjunar samþykkti í síðustu viku að fara að bjóða út ýmiss konar undirbúning vegna Kárahnjúkavirkjunar og gera ráð fyrir því ásamt Vegagerðinni að hægt sé að byggja veg inn í Fljótsdal og brú þar. Er þetta talinn nauðsynlegur undirbúningur til þess að hægt sé að hefjast handa við eiginlegar framkvæmdir vegna virkjunarinnar á næsta ári. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir ennfremur að gert sé ráð fyrir því að fyrir 1. febrúar 2002 verði hægt að taka endanlega ákvörðun um framhald málsins.

Þar sem grunnrannsóknir eru ekki til í sama mæli hér á landi og erlendis hefur Landsvirkjun þurft að fara í mjög umfangsmiklar og kostnaðarsamar rannsóknir, sagði Friðrik ennfremur. „Reyðarál kemur fram með sína skýrslu síðar í mánuðinum og er ætlunin að skýrslurnar tvær verði nokkurn veginn samferða í gegnum kerfið. Við förum ekki af stað með okkar verkefni nema samningur liggi fyrir við Reyðarál, sem er að undirbúa fjármögnun," sagði Friðrik. Þá sagðist Friðrik vilja taka fram að Kárahnjúkavirkjun sé ólík öðrum virkjunum Landsvirkjunar þar sem hún sé ekki blönduð virkjun, þ.e. ekki verði seld nein orka þaðan á almennan markað. Kárahnjúkavirkjun byggir algerlega á því að selja orku til stóriðju. „Við höfum þegar rætt heilmikið við Reyðarál sem ætlar að reka iðjuverið", sagði Friðrik. Hann sagði ennfremur að eins og sakir stæðu væri ekki það mikill munur á hugmyndum þessara tveggja aðila um orkuverð að ástæða væri til annars en að halda áfram. Á stjórnarfundi Landsvirkjunar í síðustu viku var málið skoðað ítarlega. „Ég held að það sé óhætt að slá því föstu að eins og sakir standa, og miðað við að við eigum eftir að sjá niðurstöðu umhverfismatsins, þá eru menn tiltölulega bjartsýnir." Framkvæmdir Landsvirkjunar hefjast fyrr en Reyðaráls
Þá benti Friðrik á að framkvæmdir Landsvirkjunar hæfust tveimur árum fyrr en framkvæmdir Reyðaráls þar sem það tæki Landsvirkjun fjögur ár að byggja stíflu og orkuver en Reyðarál tvö ár að byggja iðjuver. Sagði Friðrik að í samningum milli fyrirtækjanna yrði tryggt að Reyðarál greiði Landsvirkjun fyrir framkvæmdir komi eitthvert babb í bátinn. Loks sagði hann að enn væri ekkert sem benti til þess að sú dagskrá fyrir framkvæmdir sem sett var í upphafi þyrfti að fara úrskeiðis. 7% af heildarvatnasviði landsins Í matsskýrslu um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á umhverfið kemur fram að jökulárnar tvær, Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal, sem virkjaðar verða séu stór hluti af óröskuðum jökulám á Íslandi. Samanlagt vatnasvið þeirra er um 7% af heildarvatnasviði landsins. Fyrir ofan stíflu er verið að taka vatn af 3% af vatnasviði Íslands en þar af er 1,5% undir jökli. „Svæðið sem raskað verður með Kárahnjúkavirkjun, einkum með stíflum, lónum og vegum, er sérstætt um margt og vissir hlutar þess eru taldir hafa hátt verndargildi," segir í skýrslunni. Þá segir einnig að Kárahnjúkavirkjun muni þrengja að víðernum við norðanverðan Vatnajökul. Nánar um áhrifin segir:
  • „Mannvirki þrengja að ósnortnum víðernum á hálendinu sem þannig skerðast um 925 ferkm.
  • Breyting verður á landslagi við Hálslón, sem ná mun yfir um 57 ferkm svæði.
  • Verðmætar vistgerðir og búsvæði plantna og dýra fara á kaf í Hálslóni.
  • Um 32 ferkm af grónu landi fara undir Hálslón og um 8 ferkm undir önnur mannvirki og miðlunarlón.
  • Umtalsverðar breytingar verða á rennsli tveggja stórra jöluláa. Vatn eykst í Lagarfljóti en meðalrennsli Jökulsár á Dal minnkar verulega.
  • Ásýnd Hafrahvammagljúfra mun breytast talsvert þar sem nánast ekkert vatn mun renna um þau neðan við stífluna.
  • Mikilvæg burðar- og beitarsvæði hreindýra tapast og far dýranna raskast.
  • Aukið sandfok frá Hálslóni inn á Vesturöræfi getur skaðað gróður þar.
  • Friðland Kringilsrárrana skerðist um fjórðung.
  • Merkar jarðfræðiminjar fara á kaf og vísindarannsóknir á þeim verða torveldar.
  • Breytingar verða á aurasvæðum Jökulsár á Dal, aurar gróa eitthvað upp og áin markar sér þrengri farveg.
  • Margir fossar, aðallega á vatnasviði Jökulsár í Fljótsdal, munu verða vatnslitlir eða jafnvel hverfa alveg.
  • Svifaur í Lagarfljóti eykst, fljótið fær dekkri lit og skilyrði versna fyrir vatnalíf.
  • Tún blotna á nokkrum stöðum við Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót vegna hærri grunnvatnsstöðu.
  • Ströndin við Héraðsflóa mun hopa en áhrif á náttúrufar á því svæði eru takmörkuð," segir í niðurstöðum skýrslunnar.
Jákvæðu áhrif Kárahnjúkavirkjunar eru:
  • Landsframleiðsla eykst um 8-15 milljarða króna á ári.
  • Útflutningstekjur landsmanna aukast um 14%.
  • Aukin efnahagsumsvif á Austurlandi.
  • Aukin atvinna í landinu, einkum á Austurlandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert