Erfðamengi hrossa rakið upp

Morgunblaðið/ÞÖK

Alþjóðlegri sveit vísindamanna hefur tekist að rekja upp og kortleggja  erfðamengi enska veðhlaupahestsins. Íslenski hesturinn kom við sögu rannsóknanna.

Niðurstöðurnar verða birtar í vísindatímaritinu Science, en talið er að þær eigi eftir að varpa ljósi á hvernig hesturinn var taminn sem húsdýr fyrir 4.000 til 6.000 árum. .

Þær leiða í ljós sameiginleg einkennis hestsins og annarra legkökudýra, svo sem hófdýra, svo sem geita, vísiunda og nautgripa.

Þá segja vísindamennirnir, að erfðamengi hesta og manna er að miklu leyti svipað. Sú vitneskja er talin geta komið að gagni í læknisfræði.

Tæpt hundrað arfgengra sjúkdóma er þekkt meðal hesta og eru einkennin svipuð sjúkdómum sem hrjá mannkynið.  „Hesturinn og maðurinn þjást af svipuðum sjúkdómum. Með því að finna hina arfberana sem eiga sök á þeim blasir við að þekking á sjúkdómum hjá báðum tegundunum eykst og dýpkar,“ segir einn af vísindamönnunum, Kerstin Lindblad-Toh, við Broad-stofnunina hjá MIT-háskólanum í Bandaríkjunum.

Við kortlagningu erfðamengisins greindu vísindamennirnir erfðaefni úr fullorðinni veðhlaupahryssu að nafni Twilight, sem útleggja mætti sem Dimma á íslensku. Tæknin sem þeir beittu leiddi í ljós 2,7 milljarða kirna, eða núkleótíða, mengi.   

Eins og að framan segir, rannsökuðu vísindamennirnir erfðaefni annarra hestategunda. Þar á meðal íslenska hestsins, en einnig kúrekahestinn bandaríska, Andalúsíuhestinn, arabíska hestinn, belgíska dráttarhestinn, norska fjarðarhestinn og fleiri.

Með því var erfðafræðilegur breytileiki ýmissa tegunda borinn saman, bæði innan tegunda og milli þeirra. Niðurstaðan af því er safn meira en milljón kirna breytilegra erfðaeinkenna milli viðkomandi hestategunda.

Munurinn er meiri en hjá hundategundum en minni en í erfðamengi manna og kúa.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert