Tölvukerar stálu 52.000 aðgangsorðum í Óslóarháskóla

Óþekktir tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi Óslóarháskóla fyrir nokkrum vikum og hafa um nokkurt skeið haft aðgang að lykilorðum notenda tölvukerfisins. Hafa þeir og notað kerfið sem geymslulager fyrir gífurlegt magn af stolnum hugbúnaði og kvikmyndum.

Vegna þessa þurfa 52.000 notendur tölvukerfis Óslóarháskóla að skipta um lykilorð því skrárnar með gömlu orðunum féllu í hendur tölvukerunum og tryggja því ekki hverjum notenda lengur það öryggi sem þeir töldu sig búa við.

Þessu til viðbótar þurfa tölvumenn háskólans að endurbyggja tugi véla í tölvumiðstöðinni og setja öll kerfi upp á þeim upp á nýtt, að sögn blaðsins Verdens Gang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert