Mestu væntingar frá því fyrir hrun

Broskarlinn frægi
Broskarlinn frægi

Væntingar neytenda halda áfram að glæðast ef marka má Væntingavísitölu Gallup. Þannig hækkaði vísitalan um tæplega 3 stig í ágúst frá fyrri mánuði og stendur nú í 69,9 stigum sem er hæsta gildi hennar frá því fyrir hrun.

Eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir.

Frá bankahruninu hefur vísitalan mælst að meðaltali um 40 stig og er því augljóslega mun bjartara yfir landanum nú en undanfarin misseri sem kemur ekki á óvart enda bendir margt nú til þess að botninum á þessari kreppu sé náð, samkvæmt Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Þannig hefur staða vinnumarkaðarins færst til betri vegar undanfarið, verðbólgan hjaðnað, krónan styrkst, vextir lækkað og kaupmáttur launa aukist.

Af undirvísitölum Væntingavísitölunnar hækkar mat á atvinnuástandi mest milli mánaða, eða um ríflega 8 stig, og mælist nú 73,8 stig. Á hinn bóginn lækkar mat á efnahagsástandinu um tæp 3 stig milli mánaða og mælist 69,7 stig.

„Ljóst er að neytendur telja að ástandið verði nokkuð betra eftir 6 mánuði en það er nú. Þannig hækkar mat á núverandi ástandi um tæp 2 stig frá fyrri mánuði og mælist nú 16,2 stig en væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði hækka um tæp 4 stig og mælast nú 105,8 stig og er það annar mánuðinn í röð sem væntingarnar mælast yfir 100 stigum.

Hefur landinn ekki verið jafn bjartsýnn á framtíðina síðan í október 2007 og er ljóst að lund hans er enn fyrst og fremst bundin framtíðinni enda er gildi vísitölunnar fyrir mat á núverandi ástandi enn verulega lágt," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK