Sigurvegari Biggest Loser lætur í sér heyra

Sigurvegarinn í Biggest Loser Ísland, Stefán Sverrisson.
Sigurvegarinn í Biggest Loser Ísland, Stefán Sverrisson. mbl.is/Eggert

„Hvað dettur þér fyrst í hug þegar talað er um heilsurækt og breyttan lífsstíl? Hjá mér kemur alltaf fyrst upp í hugann líkamsræktarstöðvar. Flottar stöðvar fullar af flottu fólki að þenja vöðvana. Einhvernvegin hljómar það ekki spennandi fyrir fólk sem er ekki sátt við sjálft sig. Að taka þetta skref inn í stöðina getur verið ein stærsta hindrunin á ferðinni til betra lífs. Í okkar markaðsmiðaða þjóðfélagi í dag er öll áhersla lögð á að selja þér nýjustu græjurnar og nýjustu aðferðirnar í nýjustu stöðvunum í sem flottustum umbúðum. Ég ætla ekki að lasta líkamsræktarstöðvarnar, þær eru frábærar á sinn hátt, við getum bara gert svo margt annað og meira,“ segir Stefán Sverrisson í pistli sem hann birtir inn á vefnum evertoggurry.is. Stefán veit alveg um hvað hann er að tala því sjálfur sigraði hann aðra seríu af Biggest Loser Ísland sem sýndir voru á SkjáEinum í vetur.

„Hvort sem þú stundar ræktina af krafti eða kemur aldrei þar inn fyrir dyr þá er heimilið þitt og næsta nágrenni fullt af áskorunum og tækifærum til að hreyfa sig. Þegar ég kom heim af Ásbrú var ég búinn að sverja að það yrði hamast í ræktinni þar til að maður svitnaði blóði. En einhvernvegin var það ekki að gerast. Sennilega var maður búinn að fá nóg tímabundið af ræktinni enda búinn að æfa 3-4 sinnum á dag í 9 vikur samfleytt í bestu aðstöðu sem maður getur hugsað sér. Einhvernvegin var ekkert að virka til að sparka mér af stað í ræktina. En þá tók ég ákvörðun sem reyndist frábær þegar fram liðu stundir. Ég ákvað að leika á þennan heimska huga (takk Gurrý þessari setningu mun ég aldrei gleyma), nú yrði æft á fullu en ekki komið inn fyrir veggi ræktarinnar fram yfir áramót,“ segir hann.

Hann var svo heppinn að eignast spinning-hjól.

„Fyrir mikla lukku eignaðist ég spinninghjól sem ég setti upp í stofunni konunni minni til mikillar  hrellingar. Þessi skínandi rauði fákur hjálpaði mér mikið. Youtube er fullt af myndböndum um hvernig best er að taka brennslutíma á svona græju. Bara finna aðferð sem hentar þér og þú færð mikið útúr. Hér er svo smá leyndarmál sem ég notaði og virkaði ótrúlega vel. Þar sem að ég horfi mikið á þætti þá er um að gera að nýta sér það. Ef að ég horfði á þátt þá var ég á hjólinu og það voru engar undantekningar. Árangurinn var tvíþættur. Ég horfði bara á þá þætti sem að mér fannst virkilega góðir svo að sjónvarpsglápið minnkaði og ég fékk hreyfingu í staðin fyrir nartþörf sem oft fylgir imbanum.

Gönguferðir er eitt besta vopn sem við ráðum yfir gegn hreyfingarleysi. Það er ekkert sem að góður göngutúr getur ekki læknað (nema kannski fótbrot). Maður hreinsar hugann, blóðið fer af stað og ánægjan með lífið eykst. Þegar veður leyfði fór ég í gönguferðir, langar og stuttar, erfiðar og léttar, upp og niður brekkur eða bara á sléttlendi. Að ganga er ótrúleg æfing og ef þú villt meira út úr göngunni bætirðu einhverju við eins og stöfum. Hugsaðu þér alla staðina sem þú kemst á gangandi en ekki með neinu öðru móti og að ekki sé minnst á ánægjuna að fara eitthvað fyrir eigin afli. Ég uppgötvaði hjá sjálfum mér alveg nýja ástríðu og get ekki beðið eftir að komast á fyrsta fjallstoppinn minn fljótlega.“

Stefán lét skaflana ekki trufla sig.

„Eitt fyrirbrigði sem ekki er hægt að treysta á hjálpaði mér mjög mikið en það var snjórinn. Ekki láta skafla og kulda draga úr ykkur kjarkinn. Snjór er besti vinur þinn ef þú átt skóflu. Í nóvember og desember snjóaði grimmt hjá okkur hér fyrir norðan, svo ég tók fram skófluna og fór að moka. Ég hélt tröppum gangstíg og bílastæði meira og minna hreinu hjá okkur, foreldrum mínum og nágrannanum á neðri hæðinni í tvo mánuði. Þvílik æfing og púl. Það var bókstaflega hægt að vinda fötin mín þegar ég var búinn. Svo ekki láta hvíta draslið á planinu stoppa ykkur heldur hjálpa ykkur.

Allar grunnæfingar sem við gerum í stöðvunum getum við gert heima. Armbeygjur, hnébeygjur og uppsetur eru ókeypis en gríðarlega góðar fyrir mann.

Heimilisverkin getum við gert með meiri krafti. Skúringar eru hörkupúl ef við gerum þær afmennilega og á fullu spítti. Málið er að allt er betra en að hlamma sér fyrir framan tölvuna eða imbakassann, meira að segja að lesa bók brennir meira en sjónvarpsgláp.“

Þrátt fyrir að hafa ekki farið inn í líkamsræktarstöð þennan tíma missti hann eitt til tvö kíló á viku.

„Á þessum tveimur mánuðum sem liðu frá Ásbrú og fram yfir áramót missti ég eitt til tvö kíló á viku með því að fara eftir ofangreindu og passa mataræðið. Munið bara að allt er betra en að sitja og gera ekki neitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál