Áhyggjufull móðir skilur ekki hvers vegna dóttir hennar talar ekki

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda. Samsett mynd

Tinna Rut Torfa­dótt­ir sál­fræðing­ur hjá Sál­ar­líf sál­fræðistofu svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá móður sem hefur áhyggjur af sjö ára dóttur sinni. 

Sæl

Ég hef áhyggjur af sjö ára dóttur minni en hún talar ekkert í öðrum aðstæðum nema heima hjá sér. Hér heima talar hún og talar en um leið og við förum með hana eitthvað annað þá segir hún ekki neitt.

Hvað er til ráða?

Kveðja,

Guðrún

Móðir hefur áhyggjur af sjö ára dóttur sinni sem talar …
Móðir hefur áhyggjur af sjö ára dóttur sinni sem talar aldrei utan heimilis. Unsplash/Kelly Sikkema

Sæl

Takk fyrir þessa spurningu. Lýsing þín á áhyggjum þínum svipar til þess að dóttir þín gæti verið að glíma við kjörþögli.

Kjörþögli er þegar börn hefja ekki samræður og svara ekki þegar rætt er við þau. En þau tala oft mikið heima við nána ættingja í sínu örugga umhverfi en ekki í öðrum aðstæðum. Þá neita þau gjarnan að tala í leikskóla eða skóla. Kjörþögli er algengari hjá stúlkum en drengjum en er jafnframt sjaldgæf röskun. Ég mæli með því að þú skoðir hvort eitthvað sé að viðhalda vandanum hjá henni t.d. eins og viðbrögð ykkar foreldra eða í skóla. Gagnlegt er að skoða eftirfarandi þætti þegar hún er í öðrum aðstæðum en heima hjá sér:

  • Fær hún alltaf að sleppa að tala í þeim aðstæðum sem það reynist henni erfitt?
  • Er verið að hvetja hana til þess að nota óyrta tjáningu og jafnvel segja öðrum að tala ekki við hana vegna feimni eða spyrja hana ekki spurninga sem krefjast þess að hún svari munnlega?
  • Er verið að hugreysta hana of mikið? Leiðbeina/stýra henni of mikið?

Ég myndi ráðleggja að styðjast við spurningar sem auka munnlega tjáningu eins og t.d. „Fórstu í sund um helgina eða gerðir þú eitthvað annað?“ „Hvort finnst þér vöfflur eða pönnukökur betri?“

Þá er mikilvægt að reyna að forðast já og nei spurningar. Það gæti tekið tíma að fá svar frá barninu og þá myndi ég ráðleggja að:

  • Bíða í 5 sek.
  • Sýna að búist er við svari.
  • Ef ekki er svarað, þá umorða spurninguna.
  • Endurtaka nokkrum sinnum, spyrja annan og koma aftur að barninu seinna.

Hvetja hana til þess að tjá sig (nota orðin sín) í stað þess að nota látbragð (benda, kinka kolli, gretta sig). Umbuna henni fyrir allar tilraunir til munnlegrar tjáningar, nota lýsandi hrós í hvert skipti sem hún talar og styrkja allar tilraunir hjá henni til munnlegrar tjáningar.

Vona að þetta hjálpi eitthvað! En svo mæli ég eindregið með því að þið leitið með hana í meðferð hjá sálfræðingi t.d. á stofu ef vandinn fer að hamla henni mikið í skóla og hinu daglega lífi.

Gangi ykkur sem allra best.

Kveðja,

Tinna Rut Torfadóttir, sálfræðingur

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu Rut spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál