Mottumarssokkarnir eru líflegir í ár

Gréta Hlöðverðsdóttir og Snæfríð Þorsteins hjá As We Grow hönnuðu …
Gréta Hlöðverðsdóttir og Snæfríð Þorsteins hjá As We Grow hönnuðu Mottumarssokkana í ár. Ljósmynd/Aðsend

Hönnunarfyrirtækið As We Grow hannaði Mottumarssokkana í ár. Það styttist í Mottumars, árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins sem hefst formlega á hlaupársdaginn 29. febrúar með fyrsta Mottumarshlaupinu.

Þær Gréta Hlöðversdóttir, Snæfríð Þorsteins og Kamilla Henriau eru hugmyndasmiðirnir og hönnuðirnir á bakvið sokkana.

„Af virðingu fyrir veröldinni er leiðarstef As We Grow og hentar fatnaður vörumerkisins við fjölbreytt tilefni, jafnt hversdags sem spari. Við trúum á mikilvægi þess að framleiða fallegan og tímalausan fatnað sem endist lengur. Þannig hugsum við alla okkar hönnun og þróuðum sokkana út frá því,“ segir Gréta.

„Það skiptir máli að hönnuðir séu bæði greinendur og gerendur, að það sé ástæða á bak við af hverju hlutirnir eru gerðir,“ segir Snæfríð.

Hönnun sokkanna byggir á Mottumarsskegginu sem hefur í ár tekið á sig abstrakt yfirbragð og myndar glaðlegt símynstur í hinu hefðbundna litaþema átaksins. Símynstrið vísar í þá staðreynd að einn af hverjum þremur karlmönnum greinist einhvern tímann á lífsleiðinni með krabbamein. Þegar fólk klæðist sokkunum sýnir það ekki einungis stuðning í verki heldur minnir á hve málið er brýnt og varðar alla. 

Mottumars sokkarnir árið 2024 eru líflegir.
Mottumars sokkarnir árið 2024 eru líflegir. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Verkefni með alvarlegan boðskap

„Það var mjög ánægjulegt og gefandi að vinna að þessu verkefni, víkja aðeins frá hefðbundnu náttúrulegu litunum sem einkennt hafa okkar vörur undanfarin ár og gera aðeins ýktari útgáfu,“ segir Snæfríð og bætir við: „Það sem er merkilegt við þetta verkefni er að þrátt fyrir þetta alvarlega viðfangsefni var þessi ótrúlega gleði í allri samvinnunni.“

Verkefnið hefur líka persónulega þýðingu fyrir Grétu en faðir hennar fékk krabbamein sem hann komst yfir. Hún er ein af þeim sem greinir þann mikla mun sem hefur orðið, með mikilli vitundarvakningu og gefur fólki von í dag, sem síður var til staðar áður fyrr.

Mottumars er tileinkaður baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Á hverju ári greinast að meðaltali 937 karlmenn með krabbamein. Í árslok 2022 voru 7.907 karlar á lífi sem höfðu greinst með krabbamein. Þrátt fyrir miklar framfarir í greiningu og meðferð krabbameina deyja að meðaltali 325 karlmenn á ári úr krabbameinum.

Guðni Th. Jóhannesson forseti var ánægður með sokkana í ár.
Guðni Th. Jóhannesson forseti var ánægður með sokkana í ár. mbl.is/Arnþór Birkisson

Upp með sokkana

Á hverju ári framleiðir og selur Krabbameinsfélagið Mottumarssokka með nýrri hönnun. Í ár er einnig lögð áherslan á að draga úr kyrrsetu og hvetja karla til hreyfingar.

Sala sokkanna er ein meginstoðin undir starfsemi Krabbameinsfélagsins; ókeypis stuðning og ráðgjöf fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur og öflugt rannsóknar- og forvarnarstarf. Allt starfið er fjármagnað með sjálfsaflafé, stuðningi einstaklinga og fyrirtækja.

Sokkarnir hafa fest sig rækilega í sessi og margir bíða í ofvæni á hverju ári, eftir að sjá sokka ársins. Sala Mottumarssokkanna hefst 29. febrúar í vefverslun Krabbameinsfélagsins, hjá As We Grow og á 400 sölustöðum um land allt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál