Gríðarlegur fögnuður Valsmanna

Eftir 20 ára bið fögnuðu Valsmenn Íslandsmeistaratitlinum í knattspyrnu karla en Valur sigraði HK, 1;0, í lokumferð Landsbankadeildarinnar í dag. Atli Sveinn Þórarinsson skoraði eina mark leiksins snemma í fyrri hálfleik. Fögnuður Valsmanna var gríðarlegur í leikslok enda langt um liðið frá síðasta Íslandsmeistaratitli.

FH endaði í öðru sæti eftir 3:1-sigur gegn Víkingum en Víkingar enduðu í neðsta sæti deildarinnar og eru því fallnir. Spennan í lokaumferðinni var mikil þar sem að Valur og FH áttu möguleika á að hampa titlinum og fjögur lið voru í fallbaráttu.

Jónas Grani Garðarsson framherji Fram varð markahæstur í deildinni en hann skoraði 13 mörk en Helgi Sigurðsson kom næstur í röðinni með 12 mörk.

Þetta er í síðasta sinn sem efsta deild karla verður 10 liða deild en á næstu leiktíð verða 12 lið í deildinni. Grindavík, Þróttur og Fjölnir koma upp úr 1. deild.

Áhorfendamet var sett í Landsbankadeildinni á þessu tímabili. Alls mættu 119.644 áhorfendur á leikina 90 í Landsbankadeildinni í ár sem gerir 1.329 áhorfendur að meðaltali á leik.

Fyrra áhorfendametið var sett á síðasta tímabili þegar 90.026 áhorfendur mættu á leikina en það gerði að meðaltali 1.076 áhorfendur á leik. Flestir áhorfendur mættu á leik FH og Vals í 17. umferð en þá mættu 4.286 áhorfendur á Kaplakrika. Flestir áhorfendur mættu á heimaleiki FH eða 2.306 að meðaltali. Á KR völlinn mættu næstflestir í ár eða 1.873 að meðaltali.

Viðtal við Helga Sigurðsson.

Viðtal við Willum Þór og Sigurbjörn.

Textalýsing mbl.is frá leiknum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert