Er þetta virkilega veruleikinn

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar. Ómar Óskarsson

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar í knattspyrnu, stýrir sínu liði, sem hann gekk í  þegar hann var átta ára, gegn stórliði Inter Mílanó á miðvikudag í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Koma Inter til landsins er mikill hvalreki fyrir íslenska knattspyrnuáhugamenn enda mjög langt síðan íslenskt lið hefur att kappi við álíka lið. 

Rúnar er í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins og segir að hann hafi þurft að athuga hvort hann væri að dreyma þegar hann var að skoða leik Inter og Manchester United í leit að veikleikum í vörn Mílanórisans. 

„Það sem mér finnst hvað magnaðast við þennan Inter-leik er að skoða leiki Inter og reyna að finna hvar þeirra veikleikar liggja. Við ákváðum að skoða síðustu fjóra leiki með þeim og þeir voru gegn Frankfurt, Manchester United, Real Madrid og Roma!

Við þjálfararnir erum duglegir að horfa á myndbönd af leikjum. Við spiluðum við Val í gær og við horfðum á nokkra leiki með Val og þar áður á leiki með Þór. Á milli horfir maður á Inter-leiki og á einum vídeó fundinum vorum við búnir að greina nokkrar horn- og aukaspyrnur, þá ýtti ég bara á pásu.

Stóð upp og sagði: Hvað er maður að gera hérna. Við erum að pæla í föstum leikatriðum hjá Inter Milan. Þetta er eitthvað svo absúrd,“ segir hann og það kemur bros yfir kappann. „Ég labbaði bara aðeins um húsið og hugsaði með sjálfum mér: Er þetta virkilega veruleikinn.“

Viðtalið við Rúnar birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í dag.

Brynjar Björn Gunnarsson og Rúnar Páll Sigmundsson hafa verið að …
Brynjar Björn Gunnarsson og Rúnar Páll Sigmundsson hafa verið að horfa á leiki Inter Milan. Ómar Óskarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert