Eigum ekki skilið að fara stigalausir heim

FH-ingar aðgangsharðir í vítateig Blika í eitt skiptið af mörgum …
FH-ingar aðgangsharðir í vítateig Blika í eitt skiptið af mörgum í síðari hálfleiknum. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Guðmundsson var fyrirliði FH-inga þegar þeir töpuðu, 2:0, fyrir Breiðablik á Kópavogsvellinum í kvöld og kvaðst svekktur yfir því að fara stigalaus heim í Hafnarfjörðinn.

Blikar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum en FH-ingar tóku nánast völdin í þeim síðari og gerðu oft harða hríð að marki Kópavogsliðsins.

„Mér fannst við ekki lélegir í fyrri hálfleik, við vorum þéttir og skipulagðir og gáfum ekki mörg færi á okkur, en við héldum ekki boltanum eins mikið og við vildum," sagði Ólafur við mbl.is eftir leikinn.

„Í seinni hálfleik var allur skjálfti farinn úr okkur, við vorum miklu betri aðilinn og stjórnuðum leiknum frá A til Ö. Við breyttum um leikaðferð í hálfleik og það hentaði betur. Það er ótrúlegt að við skyldum ekki ná að koma inn marki og jafna þennan leik. Mér fannst við vera miklu betri aðilinn og eigum ekki skilið að fara stigalausir heim. En svona er fótboltinn.

Seinna markið þeirra var mikil óheppni af okkar hálfu. Boltinn fór af varnarmanni og hrökk inn fyrir og þeir fengu auðvelt mark. En þá áttum við að vera búnir að gera út um þennan leik," sagði Ólafur.

Hann kvaðst bjartsýnn á framhaldið fyrir hönd FH-inga sem hefja mótið á tveimur útileikjum áður en þeir fá HK í heimsókn í þriðju umferð.

„Þetta er bara fyrsti leikur, við förum jákvæðir út úr þessu heim í Kaplakrika og skoðum það sem betur má fara. Tökum með okkur það sem vel var gert í þessum leik og mætum bara sterkir til leiks á Akureyri í næstu umferð," sagði Ólafur Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka