Óskar hættur með Haugesund

Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson. Ljósmynd/FK Haugesund

Óskar Hrafn Þorvaldsson er hættur störfum sem þjálfari norska knattspyrnufélagsins Haugesund. Félagið tilkynnti þetta í morgun.

Á heimasíðu Haugesund segir að Óskar hafi tilkynnt félaginu í gær að hann hefði ákveðið að hætta störfum og afsögn hans tekur þegar gildi.

„Við gerðum ráð fyrir langri og góðri samvinnu við Óskar en hlutirnir fara ekki alltaf eins og maður vill og trúir. Við þökkum honum fyrir það starf sem hann hefur unnið við að þróa FK Haugesund og hefjum nú leit að eftirmanni hans. Stefna okkar og markmið eru óbreytt," segir Christoffer Falkeid, formaður Haugesund, á heimasíðunni.

Óskar tók við Haugesund síðasta haust, tók formlega við þegar tímabilinu 2023 lauk í byrjun desember, og stýrði liðinu í sex leikjum í norsku deildinni og í einum bikarleik. Hann hafði þá stýrt liði Breiðabliks í fjögur ár.

Haugesund hefur tapað fjórum af fyrstu sex leikjum sínum í norsku úrvalsdeildinni, unnið tvo, og er í 13. sæti af 16 liðum. Þrír síðustu leikir í röð hafa tapast. Þá féll liðið mjög óvænt út úr bikarkeppninni í fyrstu umferð með tapi gegn neðrideildaliðinu Torvastad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert