1. umferð: Tveir byrjuðu á að bæta leikjamet

Axel Óskar Andrésson úr KR lék í fyrsta sinn í …
Axel Óskar Andrésson úr KR lék í fyrsta sinn í efstu deild hér á landi, 26 ára gamall, en hann fór 16 ára frá Aftureldingu til Reading á Englandi. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Tveir leikmenn hófu tímabilið í Bestu deild karla í fótbolta á að bæta leikjamet sinna félaga í deildinni, söguleg samfelld spilamennska Hallgríms Mars Steingrímssonar var rofin og margir nýir komu við sögu í fyrstu umferðinni.

Eins og á síðasta tímabili verður fjallað um ýmiss konar áfanga sem leikmenn ná í hverri umferð deildarinnar fyrir sig, ásamt öðru sögulegu en þetta er það sem helst gerðist í 1. umferðinni sem hófst á laugardagskvöldið og lauk í gærkvöld:

Talan 100 var mikið tengd Valsmönnum í leik þeirra við ÍA í fyrstu umferðinni. Eins og sagt var frá á mbl.is á sunnudagskvöldið skoraði Patrick Pedersen sitt 100. mark í deildinni þegar hann kom Val yfir í leiknum, og síðan skoraði Gylfi Þór Sigurðsson sitt 100. deildamark á ferlinum þegar hann innsiglaði sigurinn, 2:0.

Arnar Freyr Ólafsson, markvörður, er leikjahæstur HK-inga í efstu deild karla frá upphafi. Hann bætti áfram leikjametið og spilaði sinn 83. leik fyrir félagið í deildinni gegn KA.

Hallgrímur Mar Steingrímsson missti af leik með KA í fyrsta skipti síðan félagið kom í deildina á ný árið 2017 þegar Akureyrarliðið tók á móti HK. Hallgrímur hafði leikið alla 160 leiki KA frá byrjun tímabils 2017 en það er met hjá einum leikmanni fyrir eitt félag í deildinni. 

Nú er Sigurður Egill Lárusson úr Val sá sem lengst hefur leikið í deildinni án þess að missa úr leik. Hann hefur leikið síðasta 51 leik Vals.

Sigurður Egill Lárusson hefur nú leikið lengst allra í deildinni …
Sigurður Egill Lárusson hefur nú leikið lengst allra í deildinni án þess að missa úr leik. mbl.is/Óttar Geirsson

Andri Rafn Yeoman er leikjahæstur Blika frá upphafi í efstu deild. Hann kom inn á sem varamaður gegn FH í gærkvöld og spilaði sinn 276. leik fyrir félagið í deildinni. Andri er jafnframt níundi leikjahæsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar.

Gylfi Þór Sigurðsson úr Val og Axel Óskar Andrésson úr KR áttu það sameiginlegt að spila sinn fyrsta leik í efstu deild hér á landi, eftir að hafa leikið lengi erlendis.

Vestri var með flesta nýliðana í umferðinni en ellefu af fimmtán leikmönnum Vestfjarðaliðsins sem komu við sögu í leiknum gegn Fram á sunnudaginn spiluðu sinn fyrsta leik í efstu deild. Aðeins Eiður Aron Sigurbjörnsson, Vladimir Tufegdzic, Pétur Bjarnason og Benedikt V. Warén höfðu áður spilað í deildinni.

Hinir nýliðarnir, Skagamenn, voru með fjóra leikmenn sem spiluðu í fyrsta sinn í efstu deild. Það voru erlendu leikmennirnir Erik Sandberg og Marko Vardic og svo þeir Hinrik Harðarson og Arnleifur Hjörleifsson sem áður höfðu spilað í 1. deildinni.

Norðmaðurinn Erik Sandberg var einn af nýjum leikmönnum í deildinni …
Norðmaðurinn Erik Sandberg var einn af nýjum leikmönnum í deildinni en hann kom til ÍA fyrir tímabilið. mbl.is/Óttar Geirsson

Aðrir nýir erlendir leikmenn sem spiluðu í deildinni í fyrsta sinn í fyrstu umferð voru Benjamin Stokke hjá Breiðabliki, sem skoraði í fyrsta leik, George Nunn hjá HK og Matthias Præst hjá Fylki.

Ungir nýliðar sem fengu tækifæri í umferðinni og spiluðu sinn fyrsta leik í efstu deild voru Þorsteinn Aron Antonsson hjá HK og Freyr Sigurðsson hjá Fram.

Tveir nýir þjálfarar stýrðu liðum í fyrsta skipti í deildinni, Halldór Árnason hjá Breiðabliki og Davíð Smári Lamude hjá Vestra.

Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra þreytti frumraun sína í efstu …
Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra þreytti frumraun sína í efstu deild gegn Fram. mbl.is/Óttar Geirsson

Úrslitin í 1. umferð:

Víkingur R. - Stjarnan 2:0
Fram - Vestri 2:0
KA - HK 1:1
Valur - ÍA 2:0
Fylkir - KR 3:4
Breiðablik - FH 2:0

Markahæstur í deildinni:
2 Atli Sigurjónsson, KR

Næstu leikir:
12.4. Stjarnan - KR
13.4. Breiðablik - Vestri
13.4. KA - FH
14.4. HK - ÍA
14.4. Fylkir - Valur
15.4. Fram - Víkingur R.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka