Við nýttum liðsmuninn til fulls

Arnór Smárason, fyrir miðju, í Kórnum í dag.
Arnór Smárason, fyrir miðju, í Kórnum í dag. Morgunblaðið/Óttar Geirsson

Arnór Smárason, fyrirliði Skagamanna, var að vonum ánægður með sannfærandi sigur á HK, 4:0, í annarri umferð Bestu deildar karla í fótbolta í Kórnum í Kópavogi í dag.

Arnór skoraði þar fyrsta mark ÍA á tímabilinu og Viktor Jónsson fylgdi því eftir með þrennu en mörkin komu eftir að HK missti Þorstein Aron Antonsson af velli með rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks.

"Það tók okkur smá tíma að venjast flæðinu á boltanum inni í þessari höll, það er allt öðruvísi en þar sem við æfum og það kom okkur svolítið í opna skjöldu. Við vorum ekki alveg tilbúnir, það vantaði upp á að fyrsta snerting væri góð, sendingar og svoleiðis," sagði Arnór við mbl.is eftir leikinn.

"En svo breytti rauða spjaldið klárlega leiknum. Ég er samt rosalega ánægður með hvernig við spiluðum síðari hálfleikinn, við nýttum liðsmuninn til fulls og það er geggjað að taka fyrsta sigurinn. Viktor Jónsson er kominn á blað með þremur mörkum, frábært fyrir hann að skora þrennu í dag og í þokkabót heldur markvörðurinn okkar hreinu. Þetta er í heildina geggjaður leikur og sigur fyrir okkur," sagði Arnór.

ÍA tapaði fyrir Val, 2:0, í fyrsta leiknum og er nú komið með fyrstu þrjú stigin í hús.

Leikurinn gegn Val í fyrstu umferðinni var mjög erfiður eins og við mátti búast og það var gott að koma til baka eftir hann með þessum sigri. Við erum himinlifandi," sagði Arnór sem leikur nú í fyrsta sinn fyrir uppeldisfélagið sitt í efstu deild.

"Það var virkilega gaman að ná að skora þetta fyrsta mark okkar á tímabilinu, og jafnframt mitt fyrsta mark fyrir ÍA í efstu deild. Steinar átti sendinguna á mig eftir góðan undirbúning Hinriks. Ég er mjög ánægður með marga, Hinrik var góður í síðari hálfleik, Erik Tobias var góður í vörninni, og í heildina voru margir mjög jákvæðir punktar hjá okkur í dag."

Eruð þið komnir með einhver ákveðin markmið í deildinni í ár?

Johannes Björn Vall með boltann í leiknum við HK en …
Johannes Björn Vall með boltann í leiknum við HK en hann lagði upp tvö marka ÍA. Morgunblaðið/Óttar Geirsson

"Það er mjög erfitt að segja akkúrat núna. Það fyrsta er að festa okkur í deildinni. Við erum nýliðar og það gengur oft vel á fyrsta ári en við viljum hafa þetta gott yfir lengra tímabil. Þetta er bara ákveðin þróun hjá félaginu. Við höfum trú á okkur, við viljum gera vel í ár og getum það. Við þurfum að mæta með kassann úti í alla leiki og þá getum við unnið hverja sem er.

Við tökum þennan sigur svo sannarlega með okkur, þetta var meðbyrinn sem við þurftum, og nú eigum við framundan tvo heimaleiki og setjum á fulla ferð," sagði Arnór Smárason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka