Ekki svo gott en erum í fínum málum

Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Tindastóls.
Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Tindastóls. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Við stóðum alveg í þeim og mér fannst leikurinn í jafnvægi stærstan hluta af leiknum og það var svekkjandi þegar Blikar skora,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Tindastóls eftir 3:0 fyrir Breiðablik í Kópavoginum í dag en leikið var í 2. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

„Mér fannst þetta ágætt hjá okkur, samt ekki okkar besti leikur en við sköpuðum þó þrjú virkilega góð færi og það hefði verið gott að fá mark úr þeim.  Við erum í fínum málum og byggjum ofan á frammistöðu okkar í leikjunum, við vorum ekki svo slæm og ef við hefðum jafnað í eitt-eitt hefði leikurinn mögulega breyst og allt farið upp í loft.   

Við vorum mjög nálægt því og þetta datt ekki okkar megin en við trúum því statt og stöðugt að þetta fari að detta okkar megin því stelpurnar leggja mikið á sig og vinnuframlagið er frábært, stórir kaflar í þessum leiki alveg fínir,“ sagði þjálfarinn.

Stóðum í þeim en gerðum mistök - við lærum af því

Monica Wilhelm fór á kostum í marki Tindastóls og það var að gera hjá henni.  „Mér fannst þetta erfiður leikur. Breiðablik er gott lið, við virðum og vissum að þetta yrði verðugt verkefni í dag.  Við vorum með leikplan og vissum að við þyrftum að fylgja því mínútu eftir mínútu,“ sagði Monica eftir leikinn.   

„Ég held að við höfum staðið í þeim og gerðum ágæta hluti en það voru líka augnablik, þar sem við gerðum mistök og við verðum bara að læra af þeim fyrir næsta leik.   Leikurinn er aldrei búinn fyrir en búið er flauta hann af og við börðumst til að jafna, fengum gott tækifæri til þess en í gagnsókn Blika skora þeir sem breytti leiknum.  Við þurfum að einbeittari þegar við fáum færi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert