Fjögur mörk í nýliðaslagnum

Shaina Ashouri og Eva Rut Ásþórsdóttir eigast við á Víkingsvellinum …
Shaina Ashouri og Eva Rut Ásþórsdóttir eigast við á Víkingsvellinum í dag. mbl.is/Óttar

Víkingur úr Reykjavík og Fylkir skildu jafnir, 2:2, í 2. umferð Bestu deildar kvenna í nýliðaslag á Víkingsvelli í dag. Víkingur er með fjögur stig og Fylkir tvö.

Víkingur fékk kjörið tækifæri til að skora fyrsta mark leiksins á 24. mínútu þegar Sigdís Eva Bárðardóttir náði í víti eftir baráttu við Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Fylkis. Shaina Ashouri fór á punktinn en Tinna bætti upp fyrir mistökin með að verja vel frá henni.

Tinna kom hins vegar engum vörnum við á 44. mínútu þegar Sigdís slapp í gegn og skoraði af öryggi eftir sprett hjá Emmu Steinsen Jónsdóttur.

Aðeins mínútu síðar jafnaði Mist Funadóttir metin með glæsilegu skoti upp í bláhornið eftir að hún vann boltann sjálf á hættulegum stað. Var staðan í leikhléi því 1:1.

Sú staða breyttist í 2:1 á fyrstu mínútu seinni hálfleiks en þá skoraði Eva Rut Ásþórsdóttir af öryggi úr víti eftir að Helga Guðrún Kristinsdóttir fór niður innan teigs eftir baráttu við Gígju Valgerði Harðardóttur. Gígja virtist fara í boltann fyrst en vítið stóð.

Víkingar jöfnuðu í 2:2 á 60. mínútu er Birta Birgisdóttir náði að stýra boltanum í netið í teignum, framhjá þéttum pakka, eftir fyrirgjöf frá Sigdísi frá vinstri.

Eftir markið róaðist leikurinn nokkuð og liðin skiptust á að ná fínum spilköflum. Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og liðin skiptu með sér stigunum. 

Víkingur R. 2:2 Fylkir opna loka
90. mín. Fylkir fær hornspyrnu Eftir sókn upp hægri kantinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert