Annar sigur Vestra gegn lánlausum HK-ingum

Benedikt V. Warén skoraði sigurmark Vestra og á hér í …
Benedikt V. Warén skoraði sigurmark Vestra og á hér í höggi við Birki Val Jónsson úr HK. mbl.is/Óttar Geirsson

Benedikt Warén reyndist hetja Vestra þegar liðið tók á móti HK í 4. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Laugardalnum í dag.

Leiknum lauk með naumum sigri Vestra, 1:0, en Benedikt skoraði sigurmark leiksins á 73. mínútu og tryggði nýliðunum afar dýrmætan sigur.

Vestri fer með sigrinum upp í sjöunda sæti deildarinnar í 6 stig en HK er á botninum í tólfta sætinu með 1 stig.

Sláarskot HK-inga

Leikurinn fór mjög rólega af stað. Benedikt V. Warén átti fyrstu skottilraun leiksins á 9. mínútu en Arnar Freyr Ólafsson í marki HK sá við honum.

Bæði lið áttu nokkrar ágætis skotilraunir eftir þetta og á 22. mínútu slapp Ibrahima Balde einn í gegn eftir frábært samspil Vestramanna. Brynjar Snær Pálsson átti hins vegar frábæra tæklingu og kom þannig í veg fyrir að Balde næði skoti á markið.

Á 37. mínútur fékk Birkir Valur Jónsson sannkallað dauðafæri eftir laglegt samspil HK-inga en skotð, úr miðjum vítateig Vestra, fór beint á Karl William Eskelinen í marki Vestra.

Tveimur mínútum síðar slapp Tumi Þorvarsson einn í gegn en skot hans, eftir að Eskelinen hafði komið út úr markinu og lokað á hann, fór í þverslánna. Atli Þór Jónsson náði frákastinu en skot hans var hrein hörmung og endaði út á bílastæði fyrir opnu marki.

Hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri eftir þetta og staðan því markalaus í hálfleik.

Vestramenn sterkari í síðari hálfleik

Síðari hálfleikurinn fór af stað með látum og bæði lið átti nokkrar ágætis skottilraunir til þess að byrja með.

Á 52. mínútur slapp Benedikt Warén einn í gegnum vörn HK en skot hans, utarlega í teignum, fór rétt framhjá marki HK-inga.

Vestramenn voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og Andri Rúnar Bjarnason fékk dauðafæri til þess að koma Vestra yfir á 67. mínútu þegar hann fékk frábæra sendingu frá hægri en skalli hans úr markteignum fór beint á Arnar Frey sem varði mjög vel.

Á 71. mínútu átti Birnir Breki Burknason, sem var nýkominn inn á sem varamaður hjá HK, frábæran sprett upp vinstri kantinn. Hann keyrði svo inn á teiginn og átti hörkuskot sem Eskelinen varði mjög vel í marki Vestra.

Tveimur mínútum síðar tókst Vestra svo að brjóta ísinn eftir frábæra skyndisókn. Vestramenn sóttu hratt fram völlinn eftir hornspyrnu HK-inga og boltinn barst á Andra Rúnar Bjarnason sem tókst að koma boltanum út til vinstri á Benedikt Warén. Hann fór framhjá varnarmönnum HK og átti þrumuskot með vinstri fæti sem söng í horninu fjær og staðan orðin 1:0, Vestra í vil.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum það sem eftir lifði leiks og Vestri fagnaði sigri.

Vestri 1:0 HK opna loka
90. mín. +7 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert