Skoraði með minni fyrstu snertingu

Nadía Atladóttir og stöllur í Val unnu öruggan sigur á …
Nadía Atladóttir og stöllur í Val unnu öruggan sigur á Víkingi. mbl.is/Óttar

Nadía Atladóttir fagnaði sigri og skoraði gegn sínu gamla liði er Valur burstaði Víking, 7:2, í 3. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld.

„Það var allt að virka hjá okkur. Við vorum að spila vel og þessar úrslitasendingar fram voru góðar. Við skorum sjö mörk og þá hlýtur margt að hafa gengið upp,“ sagði Nadía við mbl.is.

Nadía skipti óvænt yfir í Val frá Víkingi rétt fyrir Íslandsmótið. Hún sagði það ekki öðruvísi að spila við Víking. „Ég lít ekki á það þannig. Ég er alltaf tilbúin í leik, sama á móti hverjum það er.“

Nadía skoraði með skalla af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá Önnu Rakel Pétursdóttur. Það var fimmta mark Vals. „Ég sá fyrirgjöfina og ég vissi að ég væri að fara að setja hann. Ég leyni á mér í þessum skallamörkum og ég vissi að þetta væri að fara inn.“

Nadía Atladóttir upplifði góða tíma með Víkingi.
Nadía Atladóttir upplifði góða tíma með Víkingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún átti ekki eins gott augnablik í blálokin þegar hún gaf víti sem Víkingur skoraði sitt annað mark úr. „Ég datt aðeins fram fyrir mig og það var smá snerting. Hún var klók að láta sig detta.“

Nadía kann vel við sig hjá Val og sagði fyrstu vikurnar á Hlíðarenda hafa verið góðar. „Þær hafa verið mjög góðar. Viðtökurnar hafa verið góðar og það eru þvílík gæði og barátta á æfingum.“

Nadía skoraði sitt annað mark í efstu deild í kvöld og það fyrsta frá árinu 2016 er hún lék með FH. „Ég man eftir því. Það var á móti Þór/KA og ég var í FH. Ég kom inn á og skoraði með minni fyrstu snertingu, 16 eða 17 ára. Ég gleymi því ekki,“ sagði Nadía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert