„Will Grigg's on fire, your defence is terrified“

Will Grigg hlustar á stuðningsmenn syngja um sig.
Will Grigg hlustar á stuðningsmenn syngja um sig. AFP

Vinsælasti stuðningssöngur Evrópumótsins í Frakklandi kemur frá Norður-Írum. „Will Grigg‘s on fire, your defence is terrified“ ómar hvert sem grænklæddir stuðningsmenn þeirra fara og raunar víðar, en það mætti útleggjast á íslensku sem „Will Grigg er logandi, varnarmenn ykkar eru lafhræddir“. Lagið er nánast óþolandi grípandi og hreinlega erfitt að syngja ekki með því þegar það heyrist.

Stuðningsmenn Norður-Íra syngja um sinn mann gegn Þýskalandi.

Téður Will Grigg hefur hins vegar ekki verið svo heitur á Evrópumótinu í sumar. Nú þegar Norður-Írar hafa tryggt sér sæti í 16 liða úrslitunum, þar sem þeir mæta nágrönnum sínum frá Wales, hefur Grigg ekki spilað eina einustu mínútu. Hans helstu sprettir hafa verið meðfram endalínu vallarins, þar sem hann hefur hlaupið fram og aftur í upphitun, áður en hann hefur fengið sér sæti á varamannabekk Norður-Íra á ný. Sé rétt með farið í laginu er bekkurinn hjá Norður-Írum því án nokkurs vafa heitasti varamannabekkur sem sögur fara af.

Meistaraverkið fæðist

Þrátt fyrir að helsta hlutverk Grigg á Evrópumótinu hafi verið að hlýja félögum sínum á varamannabekknum, hefur hann svo sannarlega verið funheitur inni á fótboltavellinum síðustu misseri. Fyrir síðasta tímabil gekk hann til liðs við Wigan Athletic, í þriðju efstu deild Englands, frá MK Dons, þar sem hann hafði gert 20 mörk í sömu deild á þarsíðasta tímabili. Eftir erfiða tíma í Wiganborg, þar sem liðið hafði fallið niður um tvær deildir á þremur árum, lofaði hinn ungi stjórnarformaður félagsins, David Sharpe, að festa kaup á milljón punda framherja. Sá sem varð fyrir valinu var Will Grigg, sem þakkaði fyrir sig með því að gera 25 mörk í deildarkeppninni og skilaði það sómasveinum Wiganborgar öruggum sigri í deildinni.

Af þeim 25 skiptum sem Grigg kom boltanum í netið á tímabilinu, komu 20 þeirra eftir áramót. Það var þá sem söngurinn skemmtilegi varð til. Heiðurinn að meistaraverkinu á stuðningsmaður Wigan, Sean Kennedy að nafni, en hann birtir jafnan myndbönd af sér syngjandi stuðningssöngva á Twitter-reikningi sínum.

Söngur Kennedy sem var kveikjan að æðinu.

Lagið sem sungið er við heitir Freed from Desire og kom út árið 1996 í flutningi ítölsku söngkonunnar Gala Rizzatto. Eftir útgáfu Kennedy á laginu leið ekki á löngu þar til söngurinn hafði náð töluverðri útbreiðslu meðal stuðningsmanna Wigan og félagið með stóra hjartað hóf að vekja athygli fyrir söngva stuðningsmannanna. Svo vinsæll varð söngurinn að David Sharpe, sem tók við af afa sínum sem stjórnarformaður erfðaveldisins í Wiganborg fyrir tímabilið, ákvað að gefa Sean Kennedy, höfundi lagsins, sem nú kallar sig DJ Kenno, ársmiða á DW völlinn í Wigan á næsta tímabili.

Æðið kviknar

Hinn 25 ára gamli stjórnarformaður hefur verið duglegur að lýsa hrifningu sinni á laginu á samskiptamiðlum og hefur meðal annars sagt að söngurinn einn væri þeirra milljón punda virði, sem eytt var í Will Grigg.

Síðasti leikur Wiganborgara á tímabilinu sem leið var heimaleikur gegn Barnsley, sem þurfti sigur til að eiga möguleika á komast í umspil um laust sæti í næstefstu deild Englendinga. Það var þétt setið á DW vellinum þann daginn, en 5.000 stuðningsmenn Barnsley voru þar mættir til að styðja sína menn. Stuðningsmenn Wigan höfðu lítið annað gert en að syngja sönginn vinsæla þegar fyrsta markið kom eftir 10 mínútna leik og að sjálfsögðu var það Grigg sjálfur sem gerði það. Kurteisi heimamanna sá þó til þess að gestirnir sigruðu örugglega, með fjórum mörkum gegn einu, og gengu því allir sáttir heim á leið.

Leikmenn Barnsley tryggðu sér því sæti í umspilinu, sem endaði með sigri þeirra á Millwall í úrslitaleik á þjóðarleikvangi Englendinga. Söngurinn frá Wigan var þó ekki langt undan, því leikmenn Barnsley fögnuðu sigrinum með því að syngja um leikmanninn sem hafði skorað þrjú mörk gegn þeim á tímabilinu.

Leikmenn Barnsley hylla Will Grigg eftir sigur sinn á Millwall.

Eftir að allir helstu miðlar Bretlandseyja höfðu fjallað um sönginn sem enginn gat hætt að syngja, var ákveðið að gefa hann út. David Sharpe hafði samband við hljómsveitina Blonde og bað þá um að taka upp sérstaka útgáfu af laginu í samtarfi við DJ Kenno. Allur ágóði af sölu lagsins rann til Josephs Kendrick, ungs stuðningsmanns Wigan sem er með sjaldgæfan erfðagalla. Eflaust muna margir eftir Joseph úr úrslitaleik FA bikarsins 2013, þegar þáverandi fyrirliði Wigan, Emmerson Boyce, bar hann inn á völlinn fyrir leikinn, sem átti eftir að verða einn sá glæsilegasti í sögu elstu bikarkeppni heims.

Will Grigg‘s on Fire í flutningi Blonde náði strax miklum vinsældum og hvatti norður-írska knattspyrnusambandið fólk til að kaupa lagið á iTunes á Twitter-reikningi landsliðsins. Lagið komst fljótt inn á topp 10 lista iTunes yfir mest seldu lögin í Bretlandi, þar sem það sat með lögum listamanna á borð við Beyonce, Rihanna og Justin Timberlake, en hæst fór það í sjötta sæti.

Bitrir norðanmenn geta ekki glaðst

Þrátt fyrir að flestir geti fundið gleðina í söngnum um Will Grigg, sungið með og haft gaman, er einn hópur manna sem nær ekki að njóta þess. Hinum bitru stuðningsmönnum Newcastle í Norðimbralandi finnst þeir hafa verið rændir og segjast eiga heiðurinn að laginu, sem í þeirra útgáfu er „Mitro‘s on fire, your defence is terrified“. Mitro þessi er Aleksandar Mitrović, framherji þeirra röndóttu, sem verður seint talinn logandi á fótboltavellinum.

Harmakvein Newcastle-manna náði út fyrir knæpur borgarinnar, heimili stuðningsmanna og spjallsvæði netverja þar nyrðra, þar sem félagið sjálft birti mynd af Mitrovic með hönd á lofti á Twitter-reikningi sínum og skrifaði undir: „Réttu upp hönd ef þú hefur heyrt þetta lag einhvers staðar áður“. Í stað viðurkenningar, uppskar félagið einungis háðsglósur fyrir þetta barnalega uppátæki sitt.

Á meðan syngja stuðningsmenn Wigan og Norður-Írlands, auk allra annarra unnenda knattspyrnu og hljómlistar lagið um hinn logandi Will Grigg, líkt og þessir stuðningsmenn á Red Robin knæpunni í Wiganborg gerðu eftir tapið gegn Barnsley í síðasta mánuði.



mbl.is

LEIKIR Í DAG - 3. MAÍ

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 3. MAÍ

Útsláttarkeppnin