„Ég verð að segja að ég hef aldrei verið eins stoltur á ævi minni,“ segir Ryan Giggs sem er tekinn við knattspyrnustjórastarfinu hjá Manchester United til bráðabirgða eftir að David Moyes, sem var látinn taka poka sinn fyrr í vikunni.
Giggs stýrir liði United í fyrsta sinn á morgun þegar liðið mætir Norwich í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford en Manchester-liðið mun spila fjóra leiki undir stjórn Walesverjans.
„Ég hef verið stuðningsmaður Manchester United allt mitt líf og ég hef verið hluti af félaginu frá því ég var 13 ára gamall. Ég er stoltur, glaður, pínulítið stressaður eins og maður sé að spila en ég get ekki beðið eftir leiknum á laugardaginn,“ sagði Giggs við MUTV sjónvarpsstöðina.
„Nú er ég með hugann við Norwich og síðan taka við þrír aðrir leikir. Eftir það, hver veit hvað gerist. Viðbrögð leikmanna á æfingum hafa verið góð og nú er bara að enda tímabilið á góðu nótunum eftir vonbrigða tímabil. Skilaboð mín eru þau að ég treysti leikmönnum mínum, ég veit hvað þeir eru færir um að gera og ég vil að þeir sýni það í leiknum á laugardaginn,“ sagði Giggs.