Steve Bruce, fyrrverandi fyrirliði Manchester United og núverandi knattspyrnustjóri Hull, segir að Ryan Giggs geti vel fetað í fótspor manna á borð við Pep Guardiola sem tók við Barcelona eftir að hafa verið leikmaður liðsins og stýrði liðinu til hæstu hæða.
Giggs tók við United-liðinu eftir að David Moyes var látinn fara og mun stýra því í síðustu fjórum leikjum tímabilsins. Sá fyrsti er á morgun gegn Norwich. Giggs er orðinn fertugur en er enn að spila með United og var aðeins ráðinn stjóri til bráðabirgða. Bruce segir að það gæti þó breyst.
„Það hefur verið mikið um það að leikmenn taki við stjórastarfi. Guardiola, [Jurgen] Klinsmann og fleiri stór nöfn hafa tekið við stórum liðum. Hann gæti alveg unnið næstu fjóra leiki og fengið menn til að hugsa sig um,“ sagði Bruce.
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Cardiff og fyrrverandi liðsfélagi Giggs hjá United, efast ekki um að Giggs geti staðið sig sem stjóri.
„Ég er auðvitað búinn að tala við Giggs og óska honum alls hins besta. Giggsy hefur allt sem þarf til að verða einn daginn knattspyrnustjóri í fremstu röð. Hann er ekki einn af þeim sem þarf að tala á hverjum degi en þegar hann talar þá hlustar maður. Þannig hefur það alltaf verið. Hann kallar á virðingu,“ sagði Solskjær.