Fábregas: Rétti tíminn til að fara í Chelsea

Cesc Fábregas leikur með Chelsea á komandi leiktíð.
Cesc Fábregas leikur með Chelsea á komandi leiktíð. AFP

Spænski landsliðsmaðurinn Cesc Fábregas segir að hann hafi ákveðið að ganga til liðs við Chelsea frá Barcelona á réttum tíma, en snemma í júní var tilkynnt um kaup Lundúnaliðsins á Fábregas.

„Það var mjög mikilvægt fyrir mig að það skyldi vera gengið frá samningum áður en HM í Brasilíu hófst,“ er haft eftir Fábregas á vefsíðu Sky.

„Mér fannst vera kominn tími á breytingar hjá mér og að ég væri á góðum aldri til þess. Eftir að hafa skoðað öll tilboð og eftir að hafa rætt við þjálfarann taldi ég Chelsea vera besta kostinn,“ sagði Fábregas.

„Það er alltaf erfitt að vinna liðin sem José Mourinho þjálfar og erfitt að spila gegn þeim. Liðið er vel skipulagt og agað. Hann nær því besta út úr sínum leikmönnum,“ sagði Fábregas ennfremur og hlakkar líka til að spila með Diego Costa, sem kemur einnig nýr til Chelsea í sumar eftir að hafa skorað 35 mörk fyrir Atlético Madríd á síðustu leiktíð.

„Ég held að Diego Costa verði frábær fyrir Chelsea.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert