Gold segist óvart hafa ýtt á takkann

Sam Allardyce er ekki á förum frá West Ham að …
Sam Allardyce er ekki á förum frá West Ham að sögn Gold. AFP

David Gold, annar stjórnarformanna West Ham, segist einfaldlega hafa gert mistök þegar hann tók undir skilaboð stuðningsmanns liðsins á Twitter sem spurði hvort ekki ætti að reka knattspyrnustjórann Sam Allardyce.

Allardyce þótti orðinn valtur í sessi á síðustu leiktíð og ljóst er að hluti stuðningsmanna Hamranna vill að honum verði skipt út. Einn þeirra skrifaði Gold skilaboð á Twitter þar sem hann spurði hvort að það væri komið að því að reka Allardyce. Gold virtist styðja við tillöguna með því að líka við hana (e. favourite) en segir það hafa gerst óvart.

„Eftir 33 tíma flug frá Nýja Sjálandi var ég í bílnum að renna yfir tístin mín og svo virðist sem ég hafi óvart ýtt á favourite við eitt slíkt. Um þetta er fjallað í einhverjum blaðanna í dag svo það er best að ég ítreki að ég myndi aldrei viljandi taka undir svona ummæli, sem setja framtíð knattspyrnustjórans í óvissu. Lærdómurinn er sá að nota ekki Twitter þegar maður er þreyttur eftir flug,“ sagði Gold á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert