Carragher efast um Mignolet

Simon Mignolet horfir á eftir boltanum í mark Liverpool.
Simon Mignolet horfir á eftir boltanum í mark Liverpool. AFP

Simon Mignolet, belgíski markvörðurinn hjá Liverpool, fær sívaxandi gagnrýni fyrir frammistöðu sína í marki enska liðsins og nú hefur Jamie Carragher, fyrrverandi varnarjaxl liðsins, kallað eftir skjótum framförum Belgans.

Gary Neville, sem nú er sérfræðingur hjá Sky Sports, sagði eftir jafntefli gegn Everton á laugardaginn þar sem Phil Jagielka jafnaði fyrir Everton með þrumufleyg í uppbótartíma, að Mignolet hefði átt að vera betur undirbúinn fyrir skotið og hefði í það minnsta átt að vera mun nær að verja en raunin varð. Neville sagði að Mignolet hefði gert svipuð mistök á örlagaríkum augnablikum á síðasta tímabili, og það hefði jafnvel kostað Liverpool meistaratitilinn.

Carragher er líka sérfræðingur hjá Sky Sports og sagði í þættinum Monday Night Football í gærkvöld: „Bestu markmennirnir vinna stóru titlana með því að verja stóru skotin á stóru augnablikunum. Þetta var stórt augnablik. Þetta voru ekki alvarleg mistök, en ætti hann ekki að gera betur?

Allir tala um Steven Gerrard, þegar hann datt og missti boltann, þannig að Liverpool missti af titllinum. Það er aldrei hægt að horfa á einn leikmann og ein mistök, en þarna átti Demba Ba samt eftir að fara alla leið og skora. Þá horfir maður á markmanninn sinn og segir - nú vinnur þú titilinn fyrir okkur. Komdu með markvörsluna sem stendur uppi sem augnablikið sem réði úrslitum.

Liverpool tapaði fyrir Manchester City 2:1 í fyrra og ef Simon hefði varið frá Álvaro Negredo, þá hefði City misst tvö stig og Liverpool fengið eitt.

Ég tek Joe Hart sem dæmi. Eftir að hafa mætt Chelsea, átti City erfiðan leik við Everton og vann 3:2. Joe varði glæsilega frá Naismith, og það gerði útslagið. City vann deildina. Það er alltaf hægt að tala um markaskorara, leikmenn sem vinna deildina og ráða úrslitum, en markmenn hafa gífurlega mikið að segja og á stóru stundunum verða þeir að verja.

Simon hefur til þessa ekki varið á þennan hátt fyrir Liverpool. Ef ekki verður breyting á því, kæmi mér ekki á óvart að Liverpool færi að leita að öðrum markverði. Hann verður að bæta sig," sagði Carragher.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert