Mikið afrek ef við næðum í Meistaradeildina

Adam Lallana kom til Liverpool í sumar.
Adam Lallana kom til Liverpool í sumar. AFP

Liverpool-maðurinn Adam Lallana segir að þrátt fyrir að liðið hafi verið hársbreidd frá því að landa Englandsmeistaratitlinum á síðustu leiktíð yrði það mikið afrek að ná einu af fjórum efstu sætum deildarinnar á þessari leiktíð, og ná þannig aftur í Meistaradeild Evrópu.

Byrjun Liverpool á tímabilinu hefur verið skelfileg en liðið er í 11. sæti deildarinnar, 15 stigum á eftir toppliði Chelsea og hefur aðeins unnið fjóra af 11 leikjum sínum. Liðið sækir Crystal Palace heim á morgun.

„Við teljum enn að við getum náð einu af fjórum efstu sætunum og það yrði að mínu mati mikið afrek í ljósi þess að við erum að spila í Meistaradeildinni,“ sagði Lallana við BBC.

„Við horfum samt ekki svona langt fram í tímann. Við viljum bara komast aftur á sigurbraut,“ sagði Lallana sem kom til Liverpool frá Southampton fyrir 25 milljónir punda í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert