Eto'o kominn til Sampdoria

Samuel Eto'o í treyju Sampdoria í dag.
Samuel Eto'o í treyju Sampdoria í dag. Ljósmynd/@sampdoria

Kamerúnski knattspyrnumaðurinn Samuel Eto'o er orðinn leikmaður ítalska félagsins Sampdoria, sem staðfesti það fyrir stundu eftir að framherjinn reyndi hafði gengist undir læknisskoðun í Genúa.

Sampdoria kaupir hinn 33 ára gamla Eto'o af Everton sem hafði fengið hann án greiðslu frá Chelsea síðasta sumar og samið við hann til tveggja ára.

Eto'o er einn þekktasti knattspyrnumaður Afríku og hefur verið fjórum sinnum kjörinn besti leikmaður álfunnar, síðast árið 2010. Þá varð hann þriðji í kjöri FIFA á leikmanni ársins í heiminum árið 2005. Eto'o var áður á Ítalíu 2009 til 2011, sem leikmaður Inter Mílanó, en hann hefur líka spilað með Anzhi í Rússlandi og spænsku félögunum Barcelona, Real Madrid, Mallorca og Leganés.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert