Leicester veitir öðrum liðum von

Jermain Defoe, framherji Sunderland í baráttu við James Milner, Liverpool …
Jermain Defoe, framherji Sunderland í baráttu við James Milner, Liverpool í leik liðanna á laugardaginn. AFP

Jermain Defoe, framherji Sunderland, telur að afar óvænt og gríðarlega gott gengi Leicester City á yfirstandandi leiktíð geti virkað sem vítamínsprauta fyrir lokaátökin hjá Sunderland í botnbaráttunni á þessari leiktíð og síðan inn í næstu leiktíð.

Sunderland situr í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir 25 umferðir, en liðið fjórum stigum frá öruggu sæti þegar 13 leikir eru eftir. Sunderland var einnig í fallbaráttu á síðasta keppnistímabili, líkt og Leicester. Bæði lið björguðu sér frá falli síðasta vor og nú, tæpu ári síðar, er Leicester með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar.

„Uppgangur Leicester hefur verið ótrúlegur. Við getum velt fyrir okkur, fyrst þeir geta þetta, af hverju ekki við?“ sagði Defoe í samtali við enska fjölmiðla eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Liverpool á laugardaginn.

„Við höfum á að skipa sterkum leikmannahóp og nýju leikmennirnir sem hafa komið inn nýverið hafa verið stórkostlegir. Liðsandinn er frábær og ef við höldum áfram að leggja okkur fram fara úrslitin að fylgja með.“

Defoe jafnaði metin gegn Liverpool með tíunda marki sínu í úrvalsdeildinni í vetur og tryggði liðinu mikilvægt stig í fallbarátunni sem framundan er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert