Kennir meiðslum um dapurt gengi

Leikmenn Manchester United niðurdregnir eftir að hafa fengið mark á …
Leikmenn Manchester United niðurdregnir eftir að hafa fengið mark á sig. AFP

Louis van Gaal knattspyrnustjóri Manchester United kennir meiðslum að liðið hafi ekki náð betri árangri á tímabilinu en raun ber vitni.

United heldur enn í smá von um að ná fjórða sætinu í deildinni en liðið er í fimmta sætinu, er fjórum stigum á eftir grönnum sínum í Mancehster City en á leik til góða.

„Ég tala bara um staðreyndir en ekki einhverjar ímyndaðar aðstæður. Við vorum í toppsætinu í lok nóvember en síðan fór að halla undan fæti hjá okkur. Desembermánuður reyndist okkur mjög erfiður og það voru ástæður fyrir því. Þegar meiðslin er jafn mikil og raun ber vitni er getur þú ekki leyst öll vandamálin.

Þetta eru staðreyndir en þú getur aldrei sagt að ef við hefðum ekki átt í svona miklum meiðslum þá værum við í toppsætinu því ég ber mikla virðingu fyrir Englandsmeisturum Leicester,“ segir Van Gaal.

Í desember féll United úr leik í Meistaradeildinni þegar það tapaði fyrir Wolfsburg og innbyrti aðeins tvö stig í fimm leikjum. Liðið tapaði þremur leikjum í röð á móti Bournemouth, Norwich og Stoke City og gerði jafnefli við West Ham og Chelsea.

„Við verðum að vinna þá leiki sem við eigum eftir að öðrum kosti náum við ekki fjórða sætinu. Við verðum að berjast allt til loka,“ segir Van Gaal.

United tekur á móti Norwich á morgun, sækir West Ham í næstu viku og tekur síðan á móti Bournemouth í lokaumferðinni þann 15. maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert