Hattarmarkvörður í ensku úrvalsdeildinni

Lið Bournemouth, sem hér á í höggi við Chelsea, kom …
Lið Bournemouth, sem hér á í höggi við Chelsea, kom skemmtilega á óvart á fyrsta ári sínu í úrvalsdeildinni og hélt sæti sínu þar án vandræða. AFP

Ryan Allsop, sem varði mark knattspyrnuliðs Hattar á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum, hefur gert nýjan samning við enska úrvalsdeildarfélagið Bournemouth til ársins 2018.

Allsop, sem er 23 ára gamall, spilaði fyrri hluta tímabilsins 2012 með Hetti í 1. deildinni, þá nítján ára að aldri, og vakti talsverða athygli fyrir frammistöðu sína þar. Hann lék með Leyton Orient veturinn á eftir en hefur verið í röðum Bournemouth frá 2013 og spilað 23 deildarleiki með liðinu.

Hann kom við sögu í einum leik í úrvalsdeildinni í vetur, sem varamaður, en var lánaður til Wycombe og Portsmouth í D-deildinni og hafði áður verið í láni hjá Coventry.

Bournemouth, sem lék í fyrsta sinn í úrvalsdeildinni í vetur, tilkynnti um þetta í dag en jafnframt að sex leikmenn væru á  förum frá félaginu. Þekktastur þeirra er franski miðvörðurinn Sylvain Distin, fyrrum leikmaður Everton og Manchester City, en hann náði aðeins að spila 12 leiki í deildinni í vetur vegna þrálátra meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert