Klopp fylgst lengi með Mané

Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er afar ánægður með það að vera búinn að tryggja sér þjónustu Sadio Mané en félagið keypti hann í dag frá Southampton á 30 milljónir punda.

Ég hef fylgst með Sadio í mörg ár, alveg frá eftirtektarverðri frammistöðu hans á Ólympíuleikunum árið 2012, og fylgdist svo með þróun hans í Austurríki og á meðan hann var hjá Southampton,” sagði Klopp í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Þegar ég talaði við hann þá sá ég að hann vildi ólmur ganga í raðir félagsins og spila fyrir okkar frábæru stuðningsmenn. Ég held að þeir verði alveg jafnspenntir og ég er að sjá hann klæðast Liverpool-treyjunni,” sagði Klopp.

„Frá því ég kom hingað hef ég talað mikið við aðra starfsmenn um hann og ég taldi alltaf að hann yrði góð viðbót. Hann hefur til að bera mikla kosti, leggur hart að sér og markatölfræðin er hagstæð hjá honum,” sagði Klopp.

Sadio Mané.
Sadio Mané. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert