Hörður í sigurliði

Hörður Björgvin Magnússon og félagar unnu Aston Villa í dag.
Hörður Björgvin Magnússon og félagar unnu Aston Villa í dag. Heimasíða Bristol City

Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í knattspyrnu, lék allan leikinn er Bristol City sigraði Aston Villa 3:1 í ensku B-deildinni í dag. Alls komu þrír Íslendingar við sögu í dag.

Hörður, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við Bristol frá Juventus í sumar, en hann hefur fest sig í sessi og spilað frábærlega það sem af er tímabili.

Bristol sigraði Aston Villa 3:1 í dag en Hörður lék allan leikinn í hjarta varnarinnar við hlið Aden Flint. Bristol er með 9 stig eftir fyrstu fimm umferðirnar en liðið var nýliði í B-deildinni á síðustu leiktíð.

Jón Daði Böðvarsson lék þá allan leikinn er Wolves tapaði fyrir Huddersfield 1:0. Þá var Aron Einar Gunnarsson í byrjunarliði Cardiff City sem tapaði 1:0 fyrir Reading.

Ragnar Sigurðsson var ekki í leikmannahópnum hjá Fulham í dag en liðið vann Blackburn Rovers 1:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert