Fábregas hraunaði yfir Jóhannes Karl

Jóhannes Karl Guðjónsson í búningi Huddersfield.
Jóhannes Karl Guðjónsson í búningi Huddersfield. www.htafc.com

Cesc Fábregas, leikmaður Chelsea, fékk heldur betur að finna fyrir því í útvarpsþætti í gær þegar Kevin Kilbane, fyrrverandi landsliðsmaður Írlands, gagnrýndi hann harkalega.

Kilbane vísaði þá sérstaklega til atviks sem átti sér stað árið 2011 þegar Fábregas var á mála hjá Arsenal. Kilbane spilaði þá með Huddersfield sem var í ensku C-deildinni og var liðsfélagi Jóhannesar Karls Guðjónssonar, en liðin mættust í enska FA-bikarnum.

Kilbane talaði um að Fábregas hefði hagað sér fáránlega og verið „algjör fáviti“ eins og hann orðaði það sjálfur og tókst að draga Jóhannes Karl inn í málið.

„Staðan var 1:1 þegar Fábregas kemur inn á og hann fer beint upp að Joey Guðjónssyni og segir við hann að hann sé ömurlegur og að allir liðsfélagar hans séu ömurlegir. Í guðanna bænum, þú varst að spila við Huddersfield! Hraunaðu yfir Paul Scholes eða Roy Keane eða hvern sem er, af hverju í ósköpunum ertu að því við Joey Guðjónsson hjá Huddersfield?“ sagði Kilbane.

Jóhannes Karl spilaði með Huddersfield á árunum 2010-2012, en hann lauk ferlinum í sumar og er nú þjálfari ÍA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert