Erfiður endir Klopp hjá Liverpool

Harvey Elliot, leikmaður Liverpool, svekktur.
Harvey Elliot, leikmaður Liverpool, svekktur. AFP/Ben Stansall

Liverpool missteig sig enn einu sinni er liðið gerði jafntefli, 2:2, við West Ham í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu á heimavelli West Ham í Lundúnum í dag. 

West Ham er í áttunda sæti með 49 stig. Liverpool er í þriðja með 75 stig, tveimur stigum frá toppliði Arsenal og stigi frá Manchester City í öðru. Arsenal á þó leik til góða á Liverpool og City tvo. 

Verður því að teljast mjög ólíklegt að Liverpool verði Englandsmeistari á þessu síðasta tímabili Jürgens Klopps.

Frábær seinni hálfleikur dugði skammt

Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik komst West Ham yfir á markamínútunni, 43. Þá stangaði Jarrod Bowen fyrirgjöf Mohammed Kudus í netið með glæsibrag, 1:0. 

Allt annað Liverpool-lið mætti í síðari hálfleikinn en eftir aðeins þrjár mínútur jafnaði Andrew Robertson metin, 1:1. 

Þá kom Luis Díaz boltanum á Skotann sem kom honum í netið á nærstönginni. 

Andrew Robertson jafnaði metin.
Andrew Robertson jafnaði metin. AFP/Ben Stansall

Liverpool komst síðan yfir með skrautlegu sjálfsmarki á 65. mínútu. Þá skaut Cody Gakpo í Angelo Ogbonna og þaðan fór boltinn fyrst í Tomas Soucek og síðan Alphonse Areola markmann West Ham og í netið, 2:1 fyrir Liverpool. 

Liverpool-menn fengu ótal tækifæri til að bæta við þriðja markinu en fjórða mark leiksins kom West Ham megin. 

Þá stangaði Michail Antonio fyrirgjöf Bowen listilega í netið og jafnaði metin, 2:2.

Michail Antonio jafnaði metin.
Michail Antonio jafnaði metin. AFP/Ben Stansall

Liverpool fær Tottenham í heimsókn í næsta leik. Þá heimsækir West Ham Chelsea. 

West Ham 2:2 Liverpool opna loka
90. mín. Liverpool fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert