Manchester United verðmætasta félag heims

Þó gengi Manchester United í vetur hafi valdið stuðningsfólki félagsins …
Þó gengi Manchester United í vetur hafi valdið stuðningsfólki félagsins vonbrigðum er það á toppnum á einum lista. AFP/Oli Scarff

Manchester United er verðmætasta knattspyrnufélag heims, samkvæmt samantekt upplýsingaveitunnar Sportico sem hefur reiknað út verðgildi allra helstu félaganna.

Samkvæmt því er Manchester United 6,2 milljarða dollara virði (846 milljarða íslenskra króna) en í næstu sætum eru Real Madrid (6,06 milljarðar dollara), Barcelona (5,28 ma), Liverpool (5,11 ma) og Bayern München (4,8 ma).

Uppgangur bandarískra knattspyrnufélaga er athyglisverður því samkvæmt samantektinni eru 20 þeirra í hópi 50 verðmætustu félaga heims. Efst á listanum er Los Angeles FC  sem er í 15. sæti og metið á 1,15 milljarða dollara. Atlanta United, Inter Miami, LA Galaxy og New York City eru öll í sætum 17-20.

Enska úrvalsdeildin á níu félög í hópi þeirra fimmtíu verðmætustu, en samanlagt verðmæti þessara níu félaga er næstum því helmingi meira en verðmæti bandarísku félaganna 20 sem eru á listanum.

Spænska 1. deildin er í þriðja sæti með samtals 13 milljarða dollara en þar eru hins vegar aðeins þrjú félög á listanum, Real Madrid, Barcelona og Atlético Madrid.

Sex ítölsk félög eru í hóp 50 efstu en ekkert þeirra er meðal tíu efstu. Juventus er í 11. sæti, AC Milan í 14. sæti og Inter Mílanó í 16. sæti. 

Fjögur lið frá Þýskalandi komast á listann, þrjú frá Mexíkó og nokkrar þjóðir eiga eitt félag meðal 50 verðmætustu, eins og Holland (Ajax), Portúgal (Benfica) og Brasilía (Flamengo).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert