Snýr hann aftur á Stamford Bridge?

Antonio Conte er jafnan líflegur á hliðarlínunni og hann gæti …
Antonio Conte er jafnan líflegur á hliðarlínunni og hann gæti snúið aftur í ensku úrvalsdeildina í sumar. AFP/Justin Tallis

Chelsea hefur sent Antonio Conte freistandi tilboð um að taka á ný við starfi knattspyrnustjóra hjá félaginu.

Þetta segir ítalski fjölmiðillinn La Repubblica í dag en þar kemur fram að Chelsea hafi lagt hart að Conte að koma aftur til London og taka við starfinu af Mauricio Pochettino að þessu keppnistímabili loknu.

Conte hefur verið án starfs síðan hann hætti með Tottenham vorið 2023 en bæði AC Milan og Napoli eru sögð vilja fá hann í sínar raðir.

Ítalinn var knattspyrnustjóri Chelsea frá sumrinu 2016 til sumarsins 2018 og liðið varð enskur meistari undir hans stjórn 2017 og bikarmeistari 2018, en honum var samt sagt upp sumarið 2018.

Hann stýrði Inter Mílanó 2019-21 og liðið varð ítalskur meistari undir hans stjórn vorið 2021, í fyrsta sinn í ellefu ár.

Hann hætti samt þá um sumarið eftir deilur við stjórn félagsins en var ráðinn til Tottenham í nóvember 2021. Þar hætti hann störfum í lok mars 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert