Óvænt hetja í ótrúlegri endurkomu Real

Joselu fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Joselu fagnar sigurmarki sínu í kvöld. AFP/Thomas Coex

Joselu reyndist hetja Real Madríd þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í mögnuðum endurkomusigri á Bayern München, 2:1, í síðari leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í Madríd í kvöld.

Fyrri leiknum lauk með jafntefli, 2:2, og vann Real því einvígið samanlagt 4:3. Mætir Real Madríd liði Borussia Dortmund í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þann 1. júní á Wembley.

Alphonso Davies kom Bæjurum í forystu á 68. mínútu þegar hann fékk boltann frá Harry Kane á vinstri kantinum, lék á Antonio Rüdiger og smellhitti boltann með hægri fótar skoti sem söng í bláhorninu fjær.

Skömmu síðar virtist Real vera að jafna metin en sjálfsmark Davies var dæmt af eftir að Nacho Fernández hafði gripið um háls Joshua Kimmich og hrint honum skömmu áður.

Joselu kynntur til leiks

Á 81. mínútu kom hinn 34 ára gamli Joselu inn á sem varamaður. Sjö mínútum síðar var hann búinn að jafna metin.

Joselu fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld.
Joselu fagnar jöfnunarmarki sínu í kvöld. AFP/Javier Soriano

Það gerði hann eftir að Vinicíus Júnior tók skot fyrir sem fór beint á Manuel Neuer í marki Bayern, hann missti boltann klaufalega úr fanginu og var Joselu mættur á vettvang til þess að koma boltanum á milli fóta Neuers.

Þremur mínútum síðar, á fyrstu mínútu uppbótartíma, var sóknarmaðurinn reyndi aftur á ferðinni þegar hann fékk fasta fyrirgjöf frá Rüdiger vinstra megin úr vítateignum og stýrði boltanum í netið af örstuttu færi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert